136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir góða ræðu og líka koma því hér á framfæri að ég er mjög ánægð með hvernig forseti Alþingis hefur beitt sér við að ná sátt um rannsóknarnefnd af þessu tagi. Það er mjög mikilvægt að allir flokkar séu með í því til að skapa trúverðugleika. Það kemur fram í þessu máli að nefndin sem verður stofnuð getur ekki beitt neinum viðurlögum en á að koma málum inn í farveg komist hún að einhverju sem getur varðað refsiverða hluti. Ég býst við því að hún geti til dæmis þá komið ábendingum til sérstaks saksóknara sem við erum einmitt að vinna frumvarp um í þinginu um þessar mundir.

Í þessu máli er verið að ræða um þessa rannsóknarnefnd en svo er annað sem er mjög merkilegt að draga hérna fram og mikilvægt. Það er að í tengslum við þessa rannsókn á að koma á fót hópi hugvísindamanna sem á að skoða hvort rekja megi fall bankanna að einhverju leyti til starfshátta og siðferðis á fjármálamarkaði, þ.e. þessi siðferðislegi hluti. Það er svolítið athyglisvert að þingið sé að fara að skoða það líka og mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég vil af þessu tilefni fá að spyrja hæstv. forseta hvort það sé ekki algerlega klárt og rétt skilið hjá mér að nefndin sem á að taka til starfa og eftir atvikum þessi nefnd eða vinnuhópur hugvísindamanna, þ.e. hvort allir þessir aðilar geti ekki yfirheyrt eða fengið til viðtals alla, þ.e. embættismenn, stjórnmálamenn og alla, að enginn njóti neins konar friðhelgi gagnvart þessum rannsóknaraðilum. Er það ekki algerlega skýrt, virðulegur forseti?