138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt athugað. Það er algerlega ljóst að þeim viðskiptaafgangi sem verður á Íslandi verður skipt á milli afborgana og vaxta af Icesave-lánunum og hins vegar niðurgreiðslu annarra skulda Íslendinga. Það er ljóst að ef við ættum að verða algerlega ónæm fyrir þessu þyrftu útflutningstekjur að vaxa um 40 milljarða fyrstu árin og upp undir 100 milljarða frá 2016, þyrftu að vaxa þannig að þeir peningar gætu allir staðið undir vöxtum og afborgunum. Það er algerlega ljóst að þessi forsenda — og þar kemur kannski að svari við spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar — sem hagspekingar Seðlabankans hafa notað í útreikningum sínum er í fyrsta lagi það að raungengi verði langt fyrir neðan sögulegt meðalgengi, að það verði í kringum 0,8, sem þýðir að lífskjör á Íslandi verða mun lakari en í öðrum löndum, eðli málsins samkvæmt, raungengið segir okkur það, og að viðskiptajöfnuðurinn verður gríðarlegur, í kringum 160 milljarðar á ári að meðaltali í 10 ár.

Ég tel þetta mjög hæpnar og óraunhæfar forsendur. Slíkan viðskiptajöfnuð sjáum við bara í löndum eins og Abú Dabí og Barein og slíkum löndum. Þetta er ekki viðskiptajöfnuður sem við sjáum í hefðbundnum vestrænum hagkerfum. Ég tel þetta því óraunhæft og afar ólíklegt að það muni rætast. Þar af leiðandi þurfum við að taka frá einhverju öðru til að borga af þessu.