138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að koma í andsvar. Það er alveg til fyrirmyndar. Það vantar að stjórnarþingmenn geri meira af því. Ég þakka honum líka fyrir þaulsætni í nótt þegar við vorum að fjalla um þetta stóra mál.

Það kann vel að vera að ég hefði getað orðað þetta öðruvísi. Ég hef hins vegar sagt í ræðustól — og vona svo sannarlega að sendiráð þessara ríkja þýði fyrir ríkisstjórnir sínar hvert einasta orð sem er sagt á Alþingi — að ég tel því miður, já, að ríkisstjórnir Breta og Hollendinga — ég segi nú ríkisstjórnir, það kann að vera of mikið að tala um þjóðirnar í þessu, það er rétt — séu í dag óvinveittar Íslandi. Þær beita okkur gríðarlegri hörku og ég segi, það er mín skoðun, að þær séu þess vegna óvinveittar okkur. Ég veit ekki hvers konar vinaríkisstjórn — ég skal orða það þannig af því að það er ágæt ábending hjá hv. þingmanni að það er líklega rangt að alhæfa með því að tala um þjóðir í þessu samhengi. Ég á ágæta kunningja í Bretlandi og einnig í Hollandi sem eru miklir vinir okkar — en þegar einhver ríkisstjórn setur hryðjuverkalög á aðra ríkisstjórn getur það ekki verið gert af greiðasemi eða í vinsemd, það getur hreinlega ekki verið. Ég veit ekki til þess að Bretar hafi nokkurn tímann beðist afsökunar á því að hafa sett þessi lög á Ísland (Gripið fram í: Ég hef nú …) og örugglega valdið okkur miklu meira tjóni en annars hefði orðið. Ég tek undir orð þáverandi formanns Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssonar, þegar hann sagði að það ætti að fara fram af mikilli hörku gagnvart Bretum vegna þessa máls. Svo beita þeir líka Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir sig og þetta hvort tveggja finnst mér vera merki um að einhver sé óvinveittur okkur. Ég tek þó undir það hjá hv. þingmanni, og meina það, að það er rangt að kalla þjóðirnar þessu nafni.