138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir greiningu hans. Ég hef áður sagt að ég saknaði þess virkilega að þingið eða fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd færi í formlega áhættugreiningu á því hvar áhættan liggur í samningunum. Ég vona svo sannarlega að ég eigi eftir að heyra nánar um hvar áhættan liggur í þessum samningum, því að það virðist vera ljóst að sá eini sem mun sinna því verkefni er hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ég spurði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að því hvort eitthvað hefðu verið skoðaðar innan fjárlaganefndar aðrar leiðir til að borga þessa „skuldbindingu“ eins og hæstv. forsætisráðherra vill kalla þetta. Nú mundi ég gjarnan vilja spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem situr í efnahags- og skattanefnd, hvort þar hafi eitthvað verið skoðaðar aðrar leiðir en akkúrat sú leið að gera þennan lánasamning við Breta og Hollendinga. Hefur eitthvað verið skoðað t.d. að nota lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að fjármagna þessa skuldbindingu? Í sumar var talað um það að núvirði skuldbindingarinnar væri um 240 milljarðar og þetta ætti að hafa lækkað eitthvað vegna þess að nú er gert ráð fyrir að það verði töluvert meiri heimtur en þarna var verið að áætla, 75%, væri þá líka hægt að taka út gengisáhættuna, að þessir 240 eða 200 milljarðar eða hver svo sem upphæðin er, væru bara greiddir í íslenskum krónum? Var þetta eitthvað skoðað og er ekki ástæða til að skoða þetta?