141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti á vinnustöðum.

251. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég spyr hvað hæstv. velferðarráðherra hefur gert til að draga úr einelti á vinnustöðum.

Á síðasta löggjafarþingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn til velferðarráðherra um hvernig ráðherra hefði framfylgt tillögum sem koma fram í greinargerð frá júní 2010 um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Þá kom fram að í ráðuneytinu hefðu menn sérstaklega horft til þess hvort setja þyrfti lög um skyldur þjónustuaðila í vinnuvernd, verið væri að skoða það að veita þolendum stuðning á þremur heilsugæslustöðvum sem tilraunaverkefni frá 1. júní 2011 til 1. júní 2013, og að vinna við forvarnaáætlun hefði ekki hafist. Mér skilst að aðilar vinnumarkaðarins hafi unnið að sameiginlegum reglum um það hvernig mætti bregðast við einelti og mismunun á vinnustöðum. Í ljósi þess að nýlega héldum við upp á eineltisdaginn fannst mér við hæfi að við tækjum þetta mál upp á þingi og ræddum um það sem við höfum gert hingað til.

Í könnun sem unnin var á meðal starfsmanna ríkisins árið 2008 kom fram að 11% ríkisstarfsmanna töldu sig hafa orðið fyrir einelti síðustu 12 mánuði og fjórðungur hafði orðið vitni að einelti á sínum vinnustað. Það kom líka fram að í þeim tilvikum þar sem formleg kvörtun var lögð fram var í 76% tilvika ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Nær helmingur þeirra sem gripu til aðgerða vegna eineltis sem þeir urðu fyrir sagði að ástandið hefði ekki breyst eða jafnvel versnað og fjórðungur fór í kjölfarið að leita sér að annarri vinnu.

Í grein sem ég skrifaði í morgun í DV benti ég á umræðuna í Svíþjóð en þar hafa þegar verið sett lög sem snúa við sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum. Þar þurfa skólar að sýna fram á að þeir hafi brugðist við eineltinu á fullnægjandi hátt til að firra sig ábyrgð og skaðabótaskyldu, og þar er rætt um að setja sambærileg lög fyrir atvinnulífið í heild.

Ég vil spyrja ráðherrann, í framhaldi af því sem hann hefur þegar gert, hvort það komi til greina að gera hið sama hér. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt hversu alvarlegar afleiðingar eineltis eru. Það þarf ekki barsmíðar til heldur getur andlega ofbeldið sem einelti felst oft fyrst og fremst í skilið eftir gífurlega mikil sár. Það sýnir sig meðal annars að tíðni sjálfsvígstilrauna og áfengis- og fíkniefnaneyslu er mun hærri hjá þeim hópi sem hefur orðið fyrir einelti en öðrum.

Þetta gildir að sjálfsögðu jafnt um börn og fullorðna, (Forseti hringir.) en hér er spurt sérstaklega um fullorðna og þá vinnustaði sem falla undir málefnaflokk velferðarráðherra.