141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti á vinnustöðum.

251. mál
[16:32]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir beinir til mín fyrirspurn um hvað ég hafi gert til að berjast gegn einelti á vinnustöðum.

Í því sambandi benti hv. þingmaður réttilega á að í júní 2010 var samþykkt í ríkisstjórn Íslands aðgerðaáætlun í 30 liðum sem hafði það að markmiði að vinna gegn einelti á vinnustöðum og í skólum. Aðgerðaáætlunin var afrakstur samstarfsverkefnis þriggja ráðuneyta sem voru ráðuneyti heilbrigðismála og félags- og tryggingamála á þeim tíma, sem nú starfa undir sama hatti sem velferðarráðuneyti, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðgerðaáætlunin var unnin í samstarfi við fjölda hagsmuna- og fagaðila sem létu sig málið varða.

Með samþykkt aðgerðaáætlunarinnar veitti ríkisstjórnin einnig fjármagn til þriggja ára til að vinna að framgangi tillagnanna. Snemma árs 2011 var sett á fót sérstök verkefnisstjórn um aðgerðir gegn einelti með fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsmálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis í þeim tilgangi að fylgja aðgerðaáætluninni eftir. Verkefnisstjórnin er enn að störfum og með henni hefur einnig starfað sérstakur verkefnisstjóri.

Verkefnisstjórnin hefur mótað skýra tímaáætlun og forgangsröðun til að tryggja árangur og framgang verkefnanna í aðgerðaáætluninni og metur hvort tveggja reglulega.

Ein af tillögunum í aðgerðaáætluninni sem lýtur að vinnumarkaðnum er að endurskoða reglugerð um einelti á vinnustöðum frá árinu 2004, og kem ég betur að því verkefni hér á eftir.

Önnur tillaga í aðgerðaáætluninni var sú að tileinka einum degi á ári baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Dagur eineltis var fyrst haldinn 8. nóvember fyrir ári síðan. Þá var opnað fyrir undirritanir á þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti og skrifuðu meðal annars þrír ráðherrar undir ásamt borgarstjóra og forvígismönnum stéttarfélaga, hagsmunasamtaka, stofnana og félagasamtaka. Með undirritun sinni skuldbindur fólk sig til að vinna gegn einelti og þjóðin er þannig hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Enn er opið fyrir undirskriftir á heimasíðu verkefnisstjórnarinnar og hafa safnast tæplega 13.400 undirskriftir. Ég hvet þingmenn sem og aðra landsmenn til að kynna sér þetta mál hafi þeir ekki þegar gert það.

Dagur eineltis var haldinn í annað sinn fimmtudaginn 8. nóvember síðastliðinn. Í tilefni dagsins stóð verkefnisstjórnin um aðgerðir gegn einelti fyrir hátíðardagskrá í Þjóðmenningarhúsinu. Var dagurinn mjög vel heppnaður í alla staði, m.a. var kvennalandsliðinu í knattspyrnu veitt viðurkenning fyrir áhrifaríkar aðgerðir gegn einelti á árinu, en þær útbjuggu mjög öflugt myndband og skemmtilegt sem minnir á að einelti er dauðans alvara. Stefnt er að því að veita ávallt slíkar viðurkenningar á þessum degi.

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni er eitt af verkefnum í aðgerðaáætluninni að endurskoða reglugerð um einelti á vinnustöðum. Af því tilefni skipaði ég nefnd árið 2011 sem fékk það hlutverk að endurskoða reglur í lögum og reglugerð um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega áreitni. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar Vinnueftirlits ríkisins, Jafnréttisstofu, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Kennarasambands Íslands. Áætlað er að nefndin skili tillögum sínum til mín fljótlega á nýju ári.

Nefndinni var sérstaklega falið að hafa til hliðsjónar þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur bent mér á sem og Vinnueftirlit ríkisins og Jafnréttisstofa. Þá ber nefndinni að líta til rammasamnings aðila vinnumarkaðar á Evrópuvísu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum sem og að fjalla um önnur álitaefni sem upp hafa komið í tengslum við einelti á vinnustöðum.

Hæstv. forseti. Öll getum við verið sammála um að einelti, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi á ekki undir neinum kringumstæðum að umbera á vinnustað. Stjórnendur og starfsmenn bera mesta ábyrgð á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar og mikilvægt er að leysa ágreiningsmál og hagsmunaárekstra sem upp kunna að koma á vinnustöðum áður en þau þróast til verri vegar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað skiptir miklu máli að menn hafi skipulagða ferla, hafi eineltisáætlanir eins og skólarnir eru farnir að vera með og það sé klárt til hvaða viðbragða eigi að grípa. Það kom einnig mjög skýrt fram á ársfundi sem Vinnumálastofnun hélt hversu mikils virði það er fyrir stofnanir að hafa þetta í lagi því að einelti getur kostað gríðarlega fjármuni, fyrir utan allan skaðann af því að fólk sé lagt í einelti og skaðann af því að gera ekki neitt.

Það er von mín að sú endurskoðun laga og reglna sem varðar einelti á vinnustað sem hér hefur verið sagt frá, ásamt framkvæmd annarra aðgerða sem komu fram í aðgerðaáætluninni, komi til með að stuðla að aukinni virðingu, umhyggju og jafnrétti meðal fólks á vinnustað og aukinni vellíðunar almennt.