141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

snjóflóðavarnir.

244. mál
[17:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ágæta umræðu og þakka sérstaklega hv. fyrirspyrjanda fyrir að halda því til haga að við lögðum á það áherslu að halda dampi eins og nokkur var kostur eftir efnahagshrunið. Við lögðum mikla áherslu á að halda framkvæmdastiginu eins háu og hægt var, ekki síst vegna byggða- og atvinnusjónarmiða og vegna þess að það var samdráttur í efnahagslífinu sem olli atvinnuleysi víða um land.

Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hélt því vel til haga að verkefnunum er engan veginn lokið. Eftir að búið er að byggja þessi mannvirki þarf auðvitað að viðhalda þeim. Ábending hv. þm. Marðar Árnasonar er hins vegar mjög þess virði að leiða hugann að, þar sem það er vel hugsanlegt þegar nýframkvæmdum lýkur að auka hlutverk ofanflóðasjóðs eða útvíkka það til að sinna verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá almennt og þar með talið vinnslu hættumats fyrir allar tegundir náttúruvár. Það er eitthvað sem við verðum að gera á þessu landi þar sem við búum í svo nánu sambýli við náttúruna.

Mér finnst koma vel til greina að endurskoða lög um aukið og víðara hlutverk sjóðsins sem tæki við í fyllingu tímans þegar ofanflóðasjóður hefur lokið sínum verkefnum samkvæmt lögum. Þau verkefni eru enn þá ærin og okkar mikilvægasta hlutverk akkúrat núna er að halda dampi og ljúka því sem var lagt upp með eftir hörmungarnar 1995.