143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að fara með hálfsannleik er næsti bær við það að segja ósatt. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir ætti sjálf að kynna sér þá þingsályktunartillögu sem liggur til grundvallar þeirri ákvörðun minni að greiða atkvæði á móti þessari hækkun fyrir síðustu jól.

Það var nefnilega svo að fulltrúar núverandi stjórnarflokka í utanríkismálanefnd voru með fyrirvara á þessari þingsályktunartillögu á þá leið að ef ekki væru forsendur í þjóðarbúskapnum að fara þá leið að greiða aukin framlög til þróunarmála yrði sú leið ekki farin. Enda kemur hér fram, virðulegi forseti, að þegar þessi ríkisstjórn fór fram með sín miklu loforð, um auknar tekjur sem áttu að byggjast á veiðileyfagjaldi og einhverjum lofttekjum fyrri ríkisstjórnar, var forsendan fyrir þessari þingsályktunartillögu brostinn. Þar stendur málið, (Forseti hringir.) alveg sama hvað vinstri flokkarnir reyna nú að gera þessa ríkisstjórn tortryggilega. Það eru bara vinstri flokkarnir sem mega lækka (Forseti hringir.) þróunaraðstoð, en ekki Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.