143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hlýtur að hafa misheyrst. Var hv. þingmaður að segja að fjárlagafrumvarpið hefði komið fram í gær? (ÁPÁ: Ekki alveg.) Þetta hlýtur að vera einhvers konar heimsmet í því að fylgjast ekki með. [Hlátur í þingsal.] Hér var hv. þingmaður að tala, hann hélt að fjárlagafrumvarpið hefði komið í gær — í gær. (Gripið fram í.) Þetta er einn mesti misskilningur sem um getur í þingsögunni. Hér kemur hv. þm. Árni Páll Árnason og er bara nýmættur á svæðið og segir að fjárlagafrumvarpið hafi komið í gær og hann ætli að koma með breytingartillögu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig á að halda uppi samræðum um þessa hluti á þessum forsendum. Það er þó gaman að hv. þingmaður vitnar mikið í Davíð Oddsson, en þú skalt ekki gera Davíð Oddssyni það að vitna meira í hann ef þú ert á þessum stað í tilverunni.

En aftur: Af hverju sóttuð þið ekki þessar 3 þús. milljónir á síðasta kjörtímabili? Þetta eru engir smápeningar, við þurfum að ná þeim strax.