144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

Haf- og vatnarannsóknir.

391. mál
[17:55]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að þykjast klókur og fara mjög djúpt ofan í hugmyndirnar á bak við þetta. Ég get ekki betur séð en hér sé afar vel að verki staðið eins og maður hefði viljað sjá með fleiri stofnanir.

Mig langar að gefnu tilefni og að fenginni reynslu — hér erum við að sameina stofnanir sem eru mjög víða úti á landi. Það er verið að tala um hagræðingu, samlegðaráhrif skulum við tala um, með því að sameina þessar tvær stofnanir. Hefur hæstv. ráðherra einhverjar hugmyndir um hvaða áhrif þetta mun hafa á þá þjónustu sem er úti um allt land í dag? Gerum við okkur grein fyrir því að auk þess að vera með höfuðstöðvar í Reykjavík þá eru starfræktar sex aðrar starfsstöðvar víðs vegar um landið, í Ólafsvík, á Ísafirði, á Skagaströnd, á Akureyri, í Hornafirði og í Vestmannaeyjum? Veiðimálastofnun er síðan með starfsstöðvar að Keldnaholti, Holti og á Hvanneyri og raunar á Hvammstanga, Sauðárkróki og Selfossi.

Það skiptir mjög miklu máli í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað, sem maður hefur stutt efnislega, að menn reyni að dreifa störfum um landið og tryggja að verkefni eins og þetta séu einmitt úti á landsbyggðinni eftir því sem mögulegt er. Ég skil vel að hæstv. ráðherra vilji ekki tilgreina neinn einn stað, enda er svo sem engin ástæða til.

Mig langar samt að heyra hugrenningar, af því ég hef ekki náð að lesa hvert einasta orð hér, hæstv. ráðherra varðandi þessar starfsstöðvar og áframhaldandi uppbyggingu á þessum stöðum.