145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að halda áfram að spinna þann þráð þar sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sleppti hér í síðasta andsvari. Hv. þingmaður kom ansi vel og með ansi sláandi hætti inn á það í ræðu sinni hver staðan er í fátækustu ríkjum heimsins. Hinn skelfilegi ungbarnadauði og bara hræðilega ástand. Inn í þá umræðu finnst mér svo gríðarlega mikilvægt að við tökum þetta mál og hvaða áhrif þær breytingar sem við erum að gera á stofnanastrúktúr okkar kunna að hafa úti í hinum stóra fátæka heimi.

Meðal þess sem bent var á fyrir nefndinni er að það er flókið að fylgjast með því hvernig fjármagni sem fer til þróunarsamvinnu er varið innan ráðuneytis meðan miklu auðveldara er að fylgjast með því hvaða leið fjármögnun fer í gegnum stofnun. Svo bætist við þegar við tökum þetta út fyrir landsteinana það sem ég kom inn á í ræðu minni áðan, yfirgangur Vesturlandanna og ríkari landanna gegn fátækum ríkjum. Erum við ekki að búa til stórhættulegan kokteil sem í rauninni má segja að geti orðið uppskrift að enn aukinni misskiptingu í heiminum ef við ætlum að fara að koma þróunarsamvinnu okkar inn í þau mál að við getum látið pólitíska og viðskiptalega hagsmuni okkar ráða för? Er hv. þingmaður sammála mér í því að hafa áhyggjur af þessu og er þetta ekki eitthvað sem við verðum að berjast gegn með kjafti og klóm?