146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Fimmta dagskrármál okkar á þingi hér í dag er þingsályktunartillaga sem sú sem hér stendur ritar undir ásamt fulltrúum flokka Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir er flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, en hún gengur út á það að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.

Frú forseti. Ég vil hvetja alla til þess að kynna sér þessa tillögu og veita henni stuðning sinn. Undirrituð hefur sterkar skoðanir á ólöglegu hernámi og viðvarandi stríðsglæpum Ísraela á vesturbakkanum á Gaza. Landnemabyggðirnar og þau margítrekuðu brot á Genfarsáttmálanum sem þar eiga sér stað eru ekki nema einn angi af því mikla óréttlæti, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni sem framin eru á Palestínubúum og hinni palestínsku þjóð upp á hvern einasta dag.

Eitt skelfilegt dæmi er kerfisbundin fangelsun og pynding barna á vesturbakkanum undir því yfirskyni að þau hafi kastað steinum í brynvarða bíla ísraelska hersins. Palestínsk börn eru einu börn þessa heims þar sem viðurkennt er að það megi rétta yfir þeim af herdómstól óvinaríkis sem hernemur heimabyggð þeirra .

Þingsályktunartillagan sem fyrir liggur í dag er ekki nema eitt lítið lóð sem Alþingi getur lagt á vogarskálarnar til þess að lýsa vandlætingu okkar og ósætti við viðvarandi stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og hinu mikla óréttlæti sem palestínska þjóð hefur þurft að þola í marga áratugi. Ég hvet alla til þess að veita þessari tillögu stuðning.


Efnisorð er vísa í ræðuna