146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og í fyrri ræðu minni ætla ég að halda áfram að ræða forgangsmál okkar Framsóknarmanna í þessari umræðu. Í fyrri ræðu minni ræddi ég mikilvægi þess að samstarf sé við starfsmenn í heilbrigðisstéttum við gerð heilbrigðisáætlunar og tekur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga meðal annars undir orð okkar um mikilvægi þess.

Ég ætla að koma inn á önnur atriði þessa máls. Þau eru að við gerð heilbrigðisáætlunar skuli taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að mati okkar Framsóknarmanna því að undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar hverjar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg að fara á milli starfsstöðva.

Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða, sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt. Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítalanum.

Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála okkur Framsóknarmönnum um mikilvægi þess að efla heilbrigðisstofnanir víða um landið, fela t.d. Kragasjúkrahúsunum hér í nágrenni höfuðborgarinnar aukin sérhæfð verkefni og létta þar með álaginu af Landspítala og bæta inn fjármagni til að styrkja heilsugæslu og bráðaþjónustu á þessum Kragasjúkrahúsum.

Virðulegur forseti. Við hv. þingmenn Framsóknarflokksins vonum að hæstv. heilbrigðisráðherra sé sammála okkur um nauðsyn þess að ráðast í þessi mál því að við verðum að svara því hver framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál er, hvert við ætlum að stefna. Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Það hefur komið skýr krafa um það sem við þekkjum öll. Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er fyrir löngu orðið tímabært.