150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

stofnun dótturfélags RÚV.

[11:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ráðherra segir að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum, alveg eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Það var álit fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis í samtölum við Ríkisendurskoðun að það væri einmitt óþarft að stíga þetta skref. Það var alla vega fyrra álit þannig að þarna er áhugaverð togstreita. Um það annars að ekki sé valkvætt að fara eftir lögum eru einmitt lög um opinber fjármál sem tengjast dálítið umræðu undanfarið þar sem ráðherra setur fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á. Hann skal lýsa áherslum og markmiðum, þar með talið gæða- og þjónustumarkmiðum, um fyrirkomulag, þróun og umbætur og gera grein fyrir hvernig þeim markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum og nýtingu fjármuna. Í stefnu stjórnvalda, eins og segir í frumvarpi til laga um opinber fjármál, á að vera formleg greining og mat á stöðu þjónustu og starfsemi á einstökum málefnasviðum, ákvörðun um hvaða leið skuli fylgt til að ná fram settum markmiðum þar sem þarf að huga að kostnaði, áhrifum og ávinningi hverrar leiðar og leggja fram áætlun um framkvæmd einstakra þátta stefnumótunar, tryggja samræmi og skýra forgangsröðun (Forseti hringir.) og skilgreina tímafresti og áætlaðan kostnað.

Er þetta gert á málefnasviðum ráðherra í þeim fjárlögum sem við samþykktum hérna í gær?