150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að bera þetta á borð svona beint á eftir fjárlagaumræðunni. Þá fær fólk eitthvað létt og lipurt að vinna við. Hæstv. ráðherra fór vel yfir málið og auðvitað er heilmikil vinna sem bíður. Ég er með fyrirspurn sem lýtur að breytingu á lyfjanefnd Landspítalans og mig langar til að biðja ráðherra útskýra málið aðeins betur. Í nýju skipuriti Landspítalans segir að nefndinni sé ætlað að marka stefnu spítalans í lyfjamálum og sjá um það. Ég átta mig á því að hún gerir það ekki umfram það sem búið er að setja í lög. En síðan kemur breyting inn á síðustu stigum eftir langt ferli um S-merktu lyfin. Það stendur í 44. gr. að ætlunin sé að nefndin vinni að öruggri og skynsamlegri notkun lyfja á Landspítala og öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum — ég geri ráð fyrir að með opinberum sé átt við ríkisreknar — með það að markmiði að tryggja öryggi við umsýslu lyfja og að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð.

Síðan er nánar útlistað hvernig lyfjanefnd undir forystu forstjóra taki ákvörðun um notkun lyfja á opinberum heilbrigðisstofnunum. Þá velti ég fyrir mér: Hvað þýðir það t.d. í því tilfelli að Landspítalinn ákveði að taka ekki eitthvert lyf í notkun? Er það þá ákvörðun sem tekin er fyrir allar aðrar heilbrigðisstofnanir líka? Og ef lyfjanefnd, sem starfar undir forystu forstjórans, kemst að þeirri niðurstöðu að eitthvert lyf sé of kostnaðarsamt fyrir Landspítalann, er þar með búið að útiloka allar heilbrigðisstofnanir frá því að nota það sama lyf? Er þetta orðið svo samtvinnað?

Ég velti fyrir mér völdum þessarar nefndar, ekki síst í ljósi þess að það segir í lok 44. gr. að ákvarðanir nefndarinnar sem forstjóri Landspítalans ræður yfir séu endanlegar á stjórnsýslustigi (Forseti hringir.) og sæti ekki kæru til ráðherra. Hvaða áhrif hefur þetta á vald annarra stofnana(Forseti hringir.) og ákvarðanir um þjónustu og hvert þær beina sínum fjármunum?