150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsögu minni er hér um stórt og mikið mál að ræða og ég vænti þess að hv. velferðarnefnd gefi sér ráðrúm til að fara ofan í það. Ég bendi nefndarmönnum sérstaklega á samráðskaflann eins og ég nefndi áðan. Hann spannar allt frá síðu 43 og aftur til síðu 52 sem ég held að megi teljast óvenjudrjúgur samráðskafli en er til þess ætlaður að flýta fyrir vinnu nefndarinnar. Ég bendi á það sérstaklega.

Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir sérlega greinargóða og yfirgripsmikla ræðu þar sem hann drap á allnokkrum álitamálum. Margar mjög góðar ábendingar komu fram í ræðu hans, enda þekkir þingmaðurinn málin af eigin reynslu. Ég vil nefna sérstaklega punkta úr máli hv. þingmanns varðandi auglýsingar, endurgjöf til lækna, skyldu til að láta vita um aukaverkanir og það utanumhald sem þar er nauðsynlegt, varðandi lyfjakynningar og stöðu þeirra, aðgang að lyfjagagnagrunninum og hvernig það sé allt saman hugsað.

Ég treysti því að hv. velferðarnefnd fari vel í saumana á þessum álitamálum og vangaveltum. Ég veit að það er ekki alveg við hæfi að ráðherrann fullyrði svona sem mér finnst rétt að gera við þessa umræðu en ég tel að um óvenjulega vel unnið frumvarp sé að ræða. Hér hafa komið saman gríðarlega öflugir sérfræðingar í langan tíma sem hafa hlustað á uppbyggilegan hátt eftir spurningum, álitamálum og athugasemdum. Við höfum brugðist við athugasemdum með það fyrir augum að málið klárist að þessu sinni. Það er mjög mikilvægt að lögfræðileg umgjörð lyfjamála á Íslandi sé í samræmi við nútímann. Það er það skref sem við erum að stíga með þessu frumvarpi.

Ég hlakka til samstarfs við hv. velferðarnefnd og vonast til að þetta mikilvæga frumvarp verði að lögum á þessu þingi.