150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar rætt um það að þegar kemur að gjöldum þurfi að liggja fyrir hver raunkostnaður þjónustuveitandans, þ.e. hins opinbera aðila, sé við að veita þá þjónustu sem greitt er fyrir. Ef það er eitthvað umfram raunkostnaðinn þá er þetta í raun skattur. Við erum sammála um þetta og þess vegna þarf þessi greining að fara fram. En í þessu frumvarpi erum við að tala um skatta, svokallaða krónutöluskatta. Við erum að tala um skatta á bensín og við erum að tala um gjald í framkvæmdasjóð o.s.frv. þannig að við erum ekki að fjalla um aukatekjur ríkissjóðs eða gjaldtöku af veittri þjónustu að þessu sinni. En það er fyllilega rétt hjá hv. þingmanni að benda á þetta og þetta er verkefni sem við eigum auðvitað að vera í en það er nú stundum þannig að við erum sett í önnur verkefni sem við þurfum að klára. En ábending eða ítrekun hv. þingmanns komst til skila.