151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Mér finnst vera galli á þessu máli að þess er hvergi getið hversu mörg börn fæðast á Íslandi á ári með ódæmigerð kyneinkenni. Ég fór að grúska og komst að því að í greinargerð starfshópsins er talað um að það séu 1,7% barna. Á Íslandi fæðast um 4.000 börn á ári þannig að það gera 68 börn. Og það er alveg ótrúlega hátt hlutfall. Ef við skoðum tölur frá Bandaríkjunum, og ég lagði bara töluverða vinnu í að fara yfir margar tölur þaðan, er talað um eitt barn af hverjum 4.500–5.500. En hér eru þau 68. Ég held að það verði að skýra (Forseti hringir.) út hvers vegna er svona gríðarlegur munur á þessum tölum. Er það ekki galli, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að hvergi skuli vera minnst á það í frumvarpinu eða greinargerðinni hversu mörg börn er hér um að ræða? (Forseti hringir.) Hér er verið að setja heilan lagabálk og við vitum ekki hvað þetta eru mörg börn.