151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Til að byrja með ætla ég að leyfa mér að fullyrða að hvað sem hv. þm. Birgi Þórarinssyni hefur verið tjáð í símtali, og ég dreg orð hans ekkert í efa, en hvað sem honum kann að hafa verið tjáð þá hefur ekki neinum umsögnum frá Læknafélagi Íslands verið stungið undir stól. Ég veit að slíkri umsögn hefði verið fagnað við umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar um þetta mál, því fleiri umsagnir og því fleiri sjónarmið, þeim mun betra í svona flóknum málum.

Aðeins líka til að bregðast við því sem kom fram undir lokin í ræðu hv. þingmanns þar sem hann talaði um að kannski hefði verið nær að fá guðfræðing en siðfræðing. Það má vera en ég þykist samt fara nærri um það hvað guðfræðingurinn hefði sagt. Hann hefði sennilega sagt: Guð skapaði manninn í sinni mynd, Adam, og svo tók hann rif úr síðu mannsins Adams og gerði úr því konuna. Þar með væri málið útrætt. Kynin eru tvö, guð skapaði þau svona, fyrst bjó hann til karlmanninn og svo gerði hann konu úr rifi úr síðu karlmannsins. Við erum ekki alveg þarna lengur, með fullri virðingu fyrir trúarbrögðum og guðfræði. Það er nefnilega þannig að hugmyndir okkar þróast og breytast eftir því sem samfélagið breytist og þróast. Sú var t.d. tíðin að litið var á samkynhneigð sem sjúkdóm sem þyrfti að lækna.

Hér höfum við heyrt í ræðum fyrr í dag að mönnum verður tíðrætt um lækningar, jafnvel að hér sé bann við lækningum og bann við barnalækningum og þá er gott að minnast þess að það er ekkert mjög langt síðan að læknavísindin, vísindamennirnir sjálfir, læknarnir, sem að mati sumra eru hinn endanlegi mælikvarði góðs og ills, liggur við, rétt og rangs, eru nánast með stöðu guðs í þessu máli, það er ekki mjög langt síðan að læknarnir litu á samkynhneigð sem sjúkdóm sem þyrfti að lækna og voru með ýmsar leiðir til þess að stunda þær lækningar sem allar reyndust, eins og við vitum í dag og almenn sátt er um til allrar hamingju, hörmulega því að í aðra röndina snýst þetta mál, og kannski ekki í aðra röndina, þetta bara snýst um vald. Þetta snýst um vald yfir líkama. Þetta snýst um yfirráð yfir eigin líkama. Þetta snýst um réttinn til líkamlegrar friðhelgi og jafnframt snýst þetta um skilgreiningu á því hvað eru kvillar, hvað eru sjúkdómar og hvað ekki. Um það er tekist á og það er eðlilegt að við tökumst á um það og það er eðlilegt að við ræðum það fram og til baka og þar viljum við að sjálfsögðu að fram komi af fullum þunga sjónarmið heilbrigðisstéttanna sem þekkja mannslíkamann betur en aðrir. En læknarnir og heilbrigðisstarfsfólkið þekkir það samt ekki betur en nokkur annar hvernig það er að vera einstaklingur með ódæmigerð kyneinkenni. Það þekkir enginn betur en einstaklingarnir sem sjálfir eru með ódæmigerð kyneinkenni. Og þegar við erum að fjalla um þessi mál og erum að reyna að búa til lagalegan ramma í kringum það hvernig við högum þessum málum þá hljótum við náttúrlega að hlusta á það fólk.

Almennt talað er það aldrei í sjálfu sér áhyggjuefni að einhver fái meiri réttindi til þess að lifa í samræmi við sín eigin einkenni og lifa í samræmi og sátt við sjálfan sig. Það er aldrei ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að aðrir njóti sömu réttinda og maður sjálfur og þegar við erum að tala um ódæmigerð kyneinkenni er kannski gott að minnast þess.

Ég er ósammála því að frumvarpið eigi ekki að hafa orðin ódæmigerð kyneinkenni í heiti sínu. Það er nákvæmlega það sem þetta snýst um og kannski snýst nefnilega öll réttindabarátta um það hver er réttur hins ódæmigerða til að vera til. Þetta er eilíft samtal og eilíf samræða og það sem liggur fyrir okkur núna er niðurstaða sáttar milli þeirra ólíku hópa sem láta sig þessi mál varða og þarna hefur verið komist að ákveðnum málamiðlunum eftir að tekið hefur verið tillit til ólíkra sjónarmiða.

Mér finnst að hér hafi tekist vel til og ég tel að þetta sé gleðidagur. Ég tel að þetta sé stór áfangi á leið okkar til þess að einstaklingarnir í samfélaginu öðlist aukin réttindi og það er að mínu mati í sjálfu sér kannski ekki margt fleira um þetta að segja nema það er kannski ástæða til að rifja upp sönginn góða eftir Hafstein Þórólfsson, ég ætla nú ekki að syngja hann en mig minnir að viðlagið í þeim söng hafi verið eitthvað á þessa leið: ég er eins og ég er, sem endurómar reyndar skemmtilega orðin í Biblíunni: ég er sá sem ég er. En þá er eins og komi einhver rödd að ofan sem segir: Nei, það gengur ekki. Það gengur ekki. Þú átt að vera eins og ég segi að þú sért.

Mér finnst þetta frumvarp núna og viðleitni okkar vera áfangi á þeirri leið að við hættum þessu og að við hlustum á fólk þegar það segist vera eins og það er.