151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að vara við því, af því að þetta mál snýst um lækningar og læknisfræðilegar aðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni, að menn nálgist málið út frá því að það sé félagsfræðilegt eða sálfræðilegt. Þeir þættir eiga svo sannarlega við í þessu umhverfi öllu en ekki gagnvart þessu, ekki á þeim tíma þegar verið er að taka ákvörðun um læknisfræðilega meðhöndlun barns sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni. Nú hefur verið óskað eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. og vil ég hvetja hv. þingmenn allsherjar- og menntamálanefndar til að leggja áherslu á læknisfræðilegu þættina. Það verður líklegast til þess að hagsmunum þeirra barna sem í hlut eiga verði best fyrir komið.