Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 37. fundur,  10. feb. 2022.

afléttingar sóttvarnaaðgerða.

[11:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í gær mældist metfjöldi smita á Íslandi, 2.254 smit vegna Covid-19. Þar af voru 36 smitaðir einstaklingar inni á Landspítala og tveir í öndunarvél. Meðalaldur þeirra er 63 ár. 250 starfsmenn Landspítalans eru í einangrun. Í síðasta minnisblaði sóttvarnalæknis var afnám reglna um einangrun og sóttkví á meðal þess sem lagt var til að ráðist yrði í 24. febrúar og nú stendur til að flýta afléttingum. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði á þriðjudaginn að hann gerði ráð fyrir að stórt skref yrði stigið í afléttingu sóttvarna á morgun. Þá verða tvær vikur liðnar frá því að stjórnvöld kynntu afléttingaráætlun sína en stefnt er að því að búið verði að aflétta um miðjan mars. Samkvæmt áætlun hæstv. heilbrigðisráðherra verður næsta skref tekið á morgun, tíu dögum fyrr en áætlað var upprunalega. Er það rétt, hæstv. heilbrigðisráðherra, að reglur um sóttkví og einangrun verði felldar úr gildi á morgun? Ef svo er, hvað tekur við? Verður fólk með virk Covid-smit frjálst ferða sinna? Verður fólk sem hefur verið í nánum tengslum við smitaða skikkað til vinnu? Er tímabært að fara í slíkar aðgerðir þegar hvert metið fellur á fætur öðru? Við höfum þessar tölur frá Landspítalanum þar sem 250 starfsmenn eru í einangrun, 2.254 smit, met. Er þá kominn tími til aflétta reglu um einangrun?