153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera að blanda saman tveimur ólíkum málum, annars vegar er það staðan í hælisleitendamálum og ég er þeirrar skoðunar að þar þurfi að gera úrbætur. Þess vegna liggur fyrir þinginu frumvarp. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við gerum ekki rétt með því að vera með séríslenskar reglur sem gera það ákjósanlegra með einhverjum hætti að sækjast eftir hæli á Íslandi en annars staðar. Ég tel líka að við séum með vandamál sem liggur í því að við erum of lengi að komast að niðurstöðu í einstaka málum sem skapar sjálfstætt vandamál fyrir okkur við afgreiðslu mála. En hitt málið, sem er vinnumarkaðurinn á Íslandi, er bara allt annað umræðuefni. Það er ekkert verið að breyta hælisleitendamálum í vinnumarkaðsmál (Gripið fram í.) — við erum ekki að blanda því saman. Það er bara einfaldlega orðið tímabært að við tökum dýpri umræðu um það með hvaða hætti við viljum geta laðað til landsins sérfræðinga utan EES-svæðisins. Það eru of þröng skilyrði fyrir því að fólk geti komið hingað til dvalar og vinnu sem er að koma frá löndum (Forseti hringir.) utan EES-svæðisins. Það er t.d. allt of mikið í höndum stéttarfélaganna í landinu að ákveða það.