Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar kannski að byrja á því sem hún nefndi, að alltaf er verið að reyna að leggja á auðlindagjöld í sátt við þá sem eiga að greiða. Ég veit ekki til þess að almenningur eða skattborgarar þessa lands séu spurðir um það hvort þeir vilji borga skatta, þeir verða bara að borga. Þeir eru lagðir á og fólk verður að borga þá. Því skilur maður ekki alveg þessa pólitík að þurfa alltaf að sætta þá sem eiga að borga þetta auðlindagjald.

Ég lít þannig á að þetta kerfi sé mjög flókið og að þessi grunnur undir útreikning veiðigjalda sé í raun og veru bara bull og rusl. Ég er ánægður með að heyra og held að við séum sammála um að tímabinding úthlutunar veiðiheimilda sé það kerfi sem getur fúnkerað best. Þarna vorum við að tala um afskriftir sem fóru upp í 50% af fjárfestingu. Það er ekkert óeðlilegt við að kvóti sé afskrifaður á sama hátt og fasteign. Við afskrifum fasteignir á x mörgum árum. Útgerðarmenn gætu að sama skapi afskrifað kvótaeign eins og hv. þingmaður nefndi hér, um 5% á ári, og það færi síðan á markað. Því er greinilegt að samhljómur er á milli Samfylkingar og Viðreisnar hvað þetta varðar, að tímabinding veiðiheimilda eigi að vera það sem við byggjum á og síðan gætu nýir aðilar nýtt sér þá leið til að koma inn á markaðinn. Það að nota þetta kerfi eins og svo berlega kemur í ljós núna er algjörlega galið. (Forseti hringir.) Ég held að við hv. þingmaður getum sameinast um breytingar á þessu í framhaldinu.