Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[13:24]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu hér. Maður heyrir hversu mikið hún brennur fyrir því sem hún vill berjast fyrir hér á þingi og ég virði hv. þingmann fyrir það.

Í fyrri hluta andsvars míns langar mig aðeins að fara yfir það sem hún hefur sagt um að fletja út kúrfuna. Ég held að við séum orðin ágætlega meðvituð um að ekki eru að eiga sér stað neinar sérstakar kerfisbreytingar heldur er verið að fletja út kúrfuna eins og hv. þingmaður nefndi. Hv. þingmaður nefndi einnig í andsvari í morgun að þetta gæti verið ágætis tilefni fyrir ákveðna ráðherra að slá sér upp með fyrirsögnum í blöðum um að verið sé að hækka veiðigjöldin um 2,5 milljarða. Ég velti fyrir mér, af því að hv. þm. Kristrún Frostadóttir nefndi að það væri svo sem hægt að fikta við þetta kerfi á hvaða tíma sem er, hvort það gæti ekki verið ágætt fyrir okkur að ná þessum 2,5 milljörðum og fara úr 7 í 9,5 milljarða núna eða á næsta ári og vera opin fyrir því að taka við þeim fjármunum. Annars gætu þeir hugsanlega tapast á næsta ári, þarnæsta ári eða árið þar á eftir, því að þessir aðilar hafa ýmis konar úrræði til að breyta veiðigjaldinu sér í hag á allt annan hátt og við allt aðrar aðstæður en við hv. þingmaður höfum. Er því ekki rétt að við náum þessum 2,5 milljörðum núna?