154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

endurnýjun rekstrarleyfis Arctic Sea Farm .

[15:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Matvælastofnun hefur nýlega unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði en rekstrarleyfi fyrirtækisins féll úr gildi í ágúst. Beðið er endanlegrar staðfestingar á áhættumati siglinga, sem fyrirtækið framkvæmdi sjálft, áður en leyfi er gefið út en það á að gilda til 16 ára. Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að gefin séu út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis fyrirtækja til 16 ára rétt áður en nýtt frumvarp ráðherra um lagareldi er lagt fyrir þingið? Í áformum um lagasetningu í samráðsgáttinni kemur fram að frumvarpið muni m.a. kveða á um leyfisveitingaferlið.