133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[18:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur hér mælt fyrir frumvarpi um breyting á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. þar sem verið er að leggja til frestun á framkvæmdum, frestun á ráðstöfun fjár af söluandvirði Símans sem hafði verið gert ráð fyrir að færi í vegaframkvæmdir.

Þetta er svo sem ekki nýtt og þarf engum að koma á óvart að þetta sé það fyrsta sem þessi ríkisstjórn ræðst á þegar bregðast á við svokallaðri þenslu, þ.e. vegaframkvæmdir og sérstaklega vegaframkvæmdir úti á landi.

Við erum búin að sjá það síðastliðin fjögur ár hvernig þarna hefur verið tekið á. Gert var ráð fyrir stórátaki í vegamálum fyrir síðustu alþingiskosningar á árinu 2003. Þá var komið hér með tillögur um stóra innspýtingu í vegaframkvæmdir. Þess var reyndar gætt að árið 2002 var það var það haft í algeru lágmarki til þess að munurinn væri meiri. Árið 2002 voru framlög til vegamála því ein þau minnstu þá um nokkurt árabil.

Síðan varð vissulega nokkur innspýting 2003 og 2004 en engan veginn í samræmi við þá vegaáætlun og þá áætlun sem hafði verið lagt upp með. Mig minnir að fyrst eftir kosningar hafi áætlunin verið skorin niður, ef ég man rétt, um tæpa 1 millj. og 700 þús. kr. eða að 1.700 millj. kr. hafi strax verið skornar niður á fyrsta ári eftir kosningar. Síðan kom niðurskurður upp á tæpa 2 milljarða og svo kom aftur niðurskurður upp á 2 milljarða. Heildarniðurskurður á vegáætlun frá árinu 2003–2006 hefur því numið einhvers staðar liðlega á milli 6–7 milljörðum kr. af þessari kosningavegáætlun sem allir litu þá með væntingum til því fátt er betri fjárfesting en bættar samgöngur vítt og breitt um landið. Væntingar fólks eru miklar og ánægja þegar það heyrir að ráðast eigi í stórframkvæmdir eða stórátak, hvort sem það er lítið eða stórt reyndar, í vegamálum. Það gleður auðvitað fólk og eykur því bjartsýni.

Þegar við lítum síðan aftur á hvað hefur gerst á þessum árum þá lítur út fyrir að á árinu 2006 muni verða varið langminnst til vegamála í mörg ár. Ef við förum aftur til 2002, jú, árið fyrir kosningar þá komum við í sama hlutfall. Það sem hefur gerst auk þess til viðbótar er að æ stærri hluti af framlögum til vegamála rennur til viðhalds á aðalvegum landsins vegna þess að umferðin þyngist og viðhaldið eykst. Ég er með hérna súlurit útprentað frá Vegagerðinni um það hvernig þetta hefur þróast. Árið 2006 er að verða eitt aumasta ár í vegagerð á Íslandi í mörg ár. Samanborið við þær væntingar sem þjóðin bar til vegáætlunar sem kynnt var fyrir tæpum fjórum árum þá er þetta — ja, ég veit ekki hvað hæstv. samgönguráðherra vill kalla þetta — en þjóðin held ég að upplifi þetta meira og minna sem svik.

Nú í kjölfar alls talsins, allra ræðnanna, hvað ætli hæstv. samgönguráðherra sé búinn að halda margar ræður nú á síðustu dögum og vikum um stórátak í samgöngumálum á næstu árum og hvað ætli ráðherrar sem hafa komið því við hafi haldið margar fjálglegar ræður? Ég vil nefna nokkur dæmi. Það er verið að skella skuldinni á vegaframkvæmdir. Það er sagt að þær haldi uppi þenslunni og þess vegna þurfi að skera niður þessar litlu vegaframkvæmdir til að halda niðri þenslu. Hæstv. forsætisráðherra meira að segja lét sig hafa það að segja það sama hér áðan. Frestun á vegaframkvæmdum um rúmlega milljarð á Vestfjörðum eða á Norðausturlandi var mikilvægari í sumar til þess að slá á þenslu í 1.000 milljarða dæmi.

Í haust voru menn í kosningabaráttu í prófkjöri. Það væri stórfróðlegt að heyra viðhorf hæstv. samgönguráðherra og forsætisráðherra af því verið var að tala um þenslu. Ég er hérna með fréttir frá prófkjöri fjármálaráðherra og ég ætla að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi lesið það og fylgst með. Þetta er úr blaði þeirra sem birtist á suðurland.net 8. nóvember. Fyrirsögnin er, með leyfi forseta:

„Raunhæft að taka ákvörðun um útboð vegarins fyrir jól, segir fjármálaráðherra“.

Það er útboð á tvöföldun Suðurlandsbrautar.

Hér segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Ályktun árangursríks fundar um tvöföldun þjóðvegarins á milli Selfoss og Reykjavíkur sem haldinn var í Tryggvaskála á þriðjudag er, að herða þurfi baráttuna fyrir því að vegurinn verði boðinn út í einkaframkvæmd.“ — Í einkaframkvæmd.

„Þeir sem geta tekið ákvörðun um það eru stjórnarþingmenn og ríkisstjórnin. Fjármálaráðherra sagði á fundinum að það væri raunhæfur möguleiki að taka ákvörðun um þetta núna fyrir jólin svo hægt væri að hefjast handa í janúar 2007 ...“

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra álits á þessum yfirlýsingum hæstv. fjármálaráðherra. Mér finnst að þingið verði að fá að vita hvernig á þessum málum standi. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra. Er einkaframkvæmd í vegamálum nokkuð minna þensluhvetjandi eða hættulegri fyrir þensluna en almennar vegaframkvæmdir á vegum ríkisins? Ég krefst svara. Núna ríða hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar um héruð og predika einkaframkvæmd í vegamálum, segja að það verði að fara í einkaframkvæmd vegna þess að ríkið standi sig svo illa, svíki loforð um vegaframkvæmdir, svíki fjármagn til vegaframkvæmda, skeri það niður þegar það getur. En svo má fara í einkaframkvæmd. Ég krefst þess að bæði samgönguráðherra og forsætisráðherra svari því hvort þetta sé sú stefna sem eigi að fylgja. Er það þetta sem verið er að leiða inn með því að skera niður fjármagn á vegum ríkisins til vegaframkvæmda til þess að íbúar vítt og breitt um landið, hvort sem það er nær eða fjær höfuðborgarsvæðinu, kalli á einkaframkvæmd í vegamálum vegna þess að ríkið standi ekki við loforð sín? Er það þetta sem verið er að reyna að segja með þessum niðurskurðartillögum sem hæstv. forsætisráðherra er hér að boða á framlögum til vegamála?

Ég get látið hæstv. forsætisráðherra hafa bæði viðtöl og yfirlýsingar fjármálaráðherra sem fer með ríkiskassann þar sem hann er að lofa vegaframkvæmdum í einkaframkvæmd á Suðurlandi fyrir áramót. Ég krefst svara. Er hægt að ætlast til þess að fjármálaráðherra, þó svo hann sé í prófkjörsnauð, fari með fleipur? Er það hægt? (Gripið fram í: Svona erfitt prófkjör.) Það er erfitt prófkjör, já, enda segir hæstv. fjármálaráðherra að hans sjónarmið hafi öll breyst síðan hann flutti sig sem þingmaður í Suðurkjördæmi. Ég hélt að það væri ekki enn búið að kjósa hann þangað? Ég hélt það. Ég hélt að það væri ekki fyrr en eftir næstu kosningar að búið yrði að kjósa hann þingmann Suðurkjördæmisins. En fyrirsögnin er falleg og eðlileg. Ég er tilbúinn að berjast fyrir Sunnlendinga, segir Árni Mathiesen í einkaviðtali við Sunnlenska þar sem hann rekur þessi loforð.

Ég hef líka hér yfirlýsingar hæstv. samgönguráðherra þar sem hann segir í viðtölum að hann sjái ekkert einkaframkvæmd í vegamálum til fyrirstöðu og talar í raun fyrir slíku vegna þess að ríkið þá væntanlega standi sig svona illa. Ég krefst svara við þessu hvoru tveggja sem ég hef hér spurt um, þ.e. yfirlýsingu fjármálaráðherra um að ekkert standi vegi fyrir því að taka ákvörðun um þetta fyrir jólin, að semja um einkaframkvæmd og breikkun vegarins og að hefjast handa í janúar 2007. Einnig um hvort það sé þá ekkert þensluhvetjandi og hvort það sé þá stefna ríkisstjórnarinnar að vegaframkvæmdir eigi að fara í einkaframkvæmd vegna þess að ríkið standi ekki við loforð sín gagnvart landsmönnum. Það hlýtur að valda öllum vonbrigðum sem nú heyra að enn á að skera niður vegaframkvæmdir á næsta ári. En svo lofa þeir miklum framkvæmdum á árinu 2008 og 2009. Já, það er auðvelt því þá verður þessi ríkisstjórn vonandi ekki til staðar.

Ég held að það hljóti að valda Vestfirðingum vonbrigðum að heyra að enn eigi að fresta eða draga úr áherslum og hraða á fjármagni til framkvæmda á Vestfjörðum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti hér viðhorf íbúa norðausturhornsins til þessara ákvarðana. Ég hef þó ekki heyrt þá enn þá minnast á að þeir verði að fara með það í einkaframkvæmd. Reyndar hafa menn sagt það á Vestfjörðum að vegur um Arnkötludal muni aldrei koma nema í einkaframkvæmd vegna þess að ríkið muni aldrei eða seint eða illa standa við þær skuldbindingar og loforð og vilyrði sem það hefur gefið.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs á að skera niður samanlagt framlög til vegamála að mig minnir um 3,5 milljarða kr. miðað við það sem hafði verið lofað á vegaáætlun og auk þess það sem hafði verið lofað við sölu Símans. Við erum því þar að tala um áframhaldandi niðurskurð miðað við þau loforð sem hafa verið gefin. Hins vegar vantar ekki loforðin upp á árið 2008 og 2009.

Ég vakti athygli á þessu strax þegar verið var að ráðstafa söluandvirði Símans hversu heimskuleg símasalan var og hún verður heimskulegri og heimskulegri eftir því sem frá líður. Svo er það Fjarskiptasjóður og fjármagn sem átti að fara í Fjarskiptasjóð. Jú vissulega er verið að ýta nokkru fé fram á árinu 2006. En hvað er búið að gera? Er búið að gera nokkuð fyrir þetta fé? Og árið 2006 er nánast liðið. Er búið að framkvæma nokkuð á vegum Fjarskiptasjóðs á árinu 2006? Getur hæstv. forsætisráðherra bent á hvað hafi verið gert á vegum Fjarskiptasjóðs á árinu 2006? Ég vil gjarnan fá upptalningu á því. Ég vil gjarnan fá upptalningu á því sem búið er að gera á vegum Fjarskiptasjóðs árið 2006, og þykir núna nauðsynlegt að setja fjármagn fram frá árinu 2007 til 2006.

Það væri líka fróðlegt að fá aðeins umræðu um stöðu Fjarskiptasjóðs. Eftir því sem mér skilst átti Fjarskiptasjóður að styrkja fjarskipti og ríkisstyrkja fjarskipti á landsvæðum þar sem svokallaðir samkeppnisaðilar, þ.e. Síminn og Ogvodafone eða aðrir treystu sér ekki til að reka og byggja upp fjarskipti á samkeppnisgrunni. Þeir hafa ekki undan því landið er alltaf að stækka. Alltaf er að stækka það svæði þar sem þessir aðilar segja að þeir geti ekki séð neinar forsendur fyrir því að byggja upp fjarskiptaþjónustu á arðsemisgrunni á þessum og þessum stað.

Vestfirðingar voru einmitt að senda frá sér ályktun um daginn. Það var undirskriftasöfnun hjá Bæjarins besta hjá Snerpu á Ísafirði, undirskriftasöfnun, ákall um að fá að lágmarki að sitja við sama borð og aðrir í fjarskiptamálum. Það liggur bara einn strengur um Vestfirði og hann annar ekki því sem á hann er sett. Engar áætlanir liggja fyrir um það hvernig eigi að efla eða bæta fjarskiptasambandið, gagnaflutningskerfið til Vestfjarða, engar. En það er búið að selja Símann sem var sá eini sem hafði afl til að gera þetta. Á meðan sér aumingja Fjarskiptasjóður sem átti að fjármagna þetta fram á æ stærri verkefni því fjarskiptafyrirtækin eru auðvitað ekkert að ráðast í verkefni nema þau sem skila þeim uppsettum arði. Og þetta svæði stækkar á landinu. Sala Símans verður því æ vitlausari og kemur æ meira í koll íbúum landsbyggðarinnar sérstaklega en einnig hér. Símgjöld hækka eins og hérna hefur verið rakið áður í þingsölum, þjónustan versnar og svo þykjast menn hér vera að færa einhverjar upphæðir á milli ára við ráðstöfun á söluandvirði Símans.

Nei, frú forseti. Enn mega íbúar landsbyggðarinnar þola að það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerir þegar hún vill slá á þenslu eða skera eitthvað niður, er að skera niður vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson var í andsvari við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og brigslaði honum um dugleysi í samgöngumálum, vegaframkvæmdum og sagði að hann hefði hvorki komist lönd né strönd. Ég heyri það nú æ oftar á Vestfjörðum að þau biðja um að skipt verði um samgönguráðherra og vilja fá heldur Steingrím J. Sigfússon til að leysa úr málum og fylgja þeim eftir en ekki stöðugt, eins og núverandi samgönguráðherra gerir, að lofa fyrst og geta svo ekki staðið við eða fresta og fresta ár eftir ár framkvæmdum. Enn á ný gerist það hér.

Frú forseti. Ekki er hægt annað en að vera dapur yfir því sem þessi ríkisstjórn er að gera. Hún gengur enn á framkvæmdir, sérstaklega vegaframkvæmdir á landsbyggðinni. Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra. Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar sem birtist hér í yfirlýsingu fjármálaráðherra, þ.e. að það ætti að vera raunhæfur möguleiki að taka ákvörðun um að semja um einkaframkvæmd á tvöföldun vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss? Þetta er mikilvæg framkvæmd, mikil lifandis ósköp, mikilvæg framkvæmd og nauðsynleg. En er þetta hátturinn sem á að viðhafa, annars vegar svona loforð og hins vegar það að einkaframkvæmd eigi að leysa málin þegar ríkissjóður stendur ekki við sitt? Á að stefna í það? Hafa einkaframkvæmdir í vegamálum nokkuð minni áhrif á þenslu en almennar aðrar framkvæmdir? Það er þá alveg nýtt fyrir mér. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að skýra betur mál sitt og afstöðu einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar til þessara mála. Hvers vegna þarf stöðugt að velta þessum niðurskurði og frestunum á þá landshluta þar sem menn hafa beðið sem lengst eftir því að fá almennilega vegi og hvers vegna skulu þeir stöðugt þurfa að taka á sig niðurskurð og frestanir í vegaframkvæmdum?