133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

umferðarlög.

388. mál
[21:04]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna frumvarpinu sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að menn fari yfir þessi mál og geri bragarbætur á þeim lögum og reglum sem gilda. Auðvitað eru einstakar hugmyndir og tillögur sem hér koma fram umræðuefni, og menn munu sjálfsagt ekki koma sér fullkomlega saman um hvað sé skynsamlegt og hvað ekki af því sem hér er lagt til. Nefndin mun fara yfir það.

Ég tel reyndar að það ætti að hækka aldursmörkin. Það er auðvitað spurning hversu mikið eigi að hækka þau. Mér finnst að nefndin þurfi að fara vandlega yfir það hvaða vandamál fylgja því að hækka aldursmörkin. Ég geri mér alveg grein fyrir því að því fylgja ákveðin vandamál, og ný geta skapast við hækkun aldursmarkanna sem kannski verða ekki endilega miklu betri. Ég held t.d. að ungir ökumenn sem annars mundu sjást á bílum á götunum gætu birst á mótorhjólum eða einhvers konar skellinöðrum, öðrum farartækjum ef þeir fá ekki bílpróf. Það er umhugsunarefni hvort það mundi þá ekki líka valda óöryggi í umferðinni.

Ég hef vissar efasemdir um myndavélar sem hæstv. ráðherra virðist binda miklar vonir við. Ég held að þær geti verið mjög góðar á vissum takmörkuðum svæðum og stöðum en varla getum við séð til þess að hraðaksturskappar sem fara út á vegina til að fá útrás þeirrar ástríðu sinnar að keyra hratt muni ekki fljótlega átta sig á því hvar sé hægt að vera við þá iðju.

Ég tel fulla ástæðu til að nefndin skoði að það úrræði verði til staðar í reglum um refsingar, getum við kallað, að ökumenn sem gera sig seka um hraðakstursbrot sé hægt að dæma til að aka með skráningartölvu í bílum sínum, tölvu sem skráir ökuhraða, þannig að hafi menn brotið þannig af sér í umferðinni að ástæða þyki til verði þeir að sætta sig við það að aka eingöngu í bílum sem hafa slíka skráningartölvu. Þeir verða þá sjálfir að standa straum af þeim kostnaði sem er fólginn í því að kaupa slíka tölvu og setja í bílana. Það er í sjálfu sér ekkert dýrara en þær sektir sem hér eru á ferðinni ef menn brjóta illa af sér í umferðinni og kæmi prýðilega til greina. Þetta er ekki óþekkt fyrirbrigði. Ökumenn stórra flutningabifreiða þurfa að búa við það að vera með slík tæki í bílunum og ég sé ekki betur en að það úrræði sé a.m.k. allrar athygli vert.

Hæstv. ráðherra talaði um að sýnileiki lögreglu væri meðal þess sem þyrfti að vera til staðar. Ég er honum sannarlega sammála um það og tel reyndar að á sínum tíma hafi verið stigið skref aftur á bak þegar vegalögreglan hvarf af vegunum. Hún gerði verulega mikið gagn og vonandi sjáum við þá eitthvað sem kemur þar í staðinn. Refsingar eru út af fyrir sig nauðsynlegar og gera líka gagn en það sem við þurfum að átta okkur á er að þessi mikli hraðakstur sem er á vegunum fer að töluverðu leyti fram á svæðum þar sem erfitt er að koma við eftirliti. Þess vegna tel ég ástæðu til að nefna þá hugmynd að setja megi þá kvöð á ökumenn sem hafa brugðist trausti samfélagsins að þeir megi ekki vera á bílum nema með skráningartæki í.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég sagði í upphafi fagna ég þessu frumvarpi og vona bara að samgöngunefnd gangi vel að fjalla um það.