137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[11:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta þótt stutt ræða hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar hafi vissulega gefið tilefni til mikilla umræðna sem endurspeglast í dag.

Varðandi fundarstjórn forseta vildi ég gera athugasemd við það sem tilkynnt var með tölvupósti í gærkvöldi, þá ákvörðun forseta að verða ekki við þeim óskum sem fram höfðu komið af hálfu tiltekinna þingflokka um að tvöfalda ræðutíma í þessari umræðu. Mér er ljóst að forseta ber ekki skylda til þess að verða við þeirri ósk en forseti hefur til þess heimild. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort henni finnist þetta mál ekki þess eðlis að eðlilegt sé að rýmka fyrir umræðu þannig að ræðumenn hafi tíma til að fjalla um þau ítarlegu nefndarálit sem fyrir liggja í þessu risavaxna máli. Ég spyr: Hvað liggur á? Af hverju er ekki hægt að verða við þessari ósk um tvöfaldan ræðutíma í risavöxnu máli? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)