141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að efna til þessarar umræðu vegna ástandsins á Gaza-svæðinu og í Ísrael og jafnframt ráðherranum fyrir ágætissvör og viðbrögð við orðum formanns utanríkismálanefndar. Það sem mér finnst skipta öllu þegar við ræðum hér lengst norður í hafi á Íslandi um ástandið þarna suður frá, sem er svo ótrúlega fjarlægt og erfitt að setja sig inn í, er að við hljótum að gera kröfu til þess að ofbeldinu ljúki, að það verði hætt að varpa sprengjum á saklausa borgara. Þess vegna finnst mér að það sé okkar hlutverk á þessum tímapunkti, kannski ekki að velta því fyrir okkur hvenær Palestína fari inn í Sameinuðu þjóðirnar, heldur að styðja fyrst og fremst við friðarumleitanir sem nú standa yfir. Nú hafa Egyptar tekið forustu um að reyna að leiða fram frið á þessu svæði og stöðva loftárásir sem hafa komið beggja megin við múrana. Við skulum hafa það í huga, til þess að allt sé haft með sem máli skiptir í þessari umræðu, að að þessu sinni kom neistinn sem kveikti í púðurtunnunni frá Hamas-samtökunum, sem hafa lýst því yfir að það sé þeirra stefna að það þurfi að þurrka út Ísraelsríki.

Ég skil ekki slíka stefnu þeirra megin frá og ég efast um að það verði nokkurn tímann hægt að vinna að friði á svæðinu á meðan það eru slík öfl sem hafa undirtökin á Gaza-svæðinu, en okkur öllum er gróflega misboðið þegar það berast myndir um fréttamiðla af börnum og gamalmennum, venjulegum saklausum borgurum sem eru fórnarlömb árása sem vissulega geta komið hvorum megin frá. Við tökum þó öll eftir því að skeytin eru mun fleiri sem koma Ísraels megin frá og það er að sjálfsögðu skýlaus krafa að til þess að Ísrael gæti öryggis borgara sinna verði (Forseti hringir.) líka gætt meðalhófs. Það er sanngjörn og eðlileg krafa en í (Forseti hringir.) mínum huga skiptir það öllu núna að menn styðji við þær friðarumleitanir sem standa yfir af hálfu Egypta og þeir eiga þakkir skildar fyrir að hafa haft það frumkvæði.