141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú er æði langt um liðið síðan stjórnlagaráð sem áður var kosið sem stjórnlagaþing, ég ætla nú ekki að minnast á alla þá sorglegu sögu, kom með tillögur að gjörsamlega nýrri stjórnarskrá inn til Alþingis og fór þar af leiðandi eins langt með sitt umboð og hægt var, því hún hefði getað komið með breytingar á stjórnarskránni án þess að kollvarpa henni. Þetta er að því leyti gleðidagur því loksins gefst mér færi á því, frú forseti, að ræða tillögur stjórnlagaráðs með réttum hætti en ekki með skökkum eins og þegar ég sagði þegar rætt var um ferlið, af illri nauðsyn til þess að fólk vissi um hvað það ætti að fara að greiða atkvæði. Við höfum nefnilega ekki enn þá nema af stuttri, sérstakri umræðu sem var reyndar lengd, getað rætt um tillögur stjórnlagaráðs sem að mörgu leyti eru afskaplega skynsamlegar, frú forseti. Ég hef margoft undirstrikað það og enginn þingmaður hefur enn þá sagt mér að það þurfi ekki að breyta núverandi stjórnarskrá, alla vega því ákvæði í stjórnarskránni sem segir að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki. Það náttúrlega vita allir að það er ekki rétt. Og deilurnar um 26. gr. sögðu mér það að stjórnarskráin er ekki í lagi. Það á ekki að þurfa sérfræðinga til að túlka einstök ákvæði.

Ég las þrjú álit á sínum tíma um niðurstöðu í fjölmiðlamálinu að mig minnir, um túlkun 26. gr. Lærð og mjög skynsamleg og rökföst — rökföst, frú forseti — álit þriggja sérfræðinga. Ég var eiginlega sammála þeim öllum. Það var ekkert þeirra samstiga, þau voru öll þvers og kruss um hvað 26. gr. þýddi, vegna þess að 13. gr. tekur allt til baka og segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, þá væntanlega líka valdið í 26. gr. Það er dálítið athyglisvert.

Ég ætla að ræða um ferlið. Því miður er það svo að hér var kosning um stjórnarskrá. Ég segi alltaf: Vesalings fólkið fór og kaus á kjörstað og greiddi atkvæði um eitt stykki stjórnarskrá. Ég las viðtöl við fólk sem sagði að það hefði kíkt á þetta um morguninn og fjölskyldan hefði verið sammála um að greiða þessu atkvæði. Ég fór að hugsa: Ég er nú eitthvað verulega takmarkaður, frú forseti, því ég eyddi öllu jólafríinu síðasta og öllum janúarmánuði í að fara einmitt í gegnum þessar tillögur. Mjög margt hef ég bent á sem hreinlega stenst ekki og má ekki standa. Um þetta var fólk að greiða atkvæði.

Mér finnst að ferlið sé of létt. Þjóðin greiðir aldrei atkvæði um þetta með bindandi hætti. Menn eru að tala um að hafa atkvæðagreiðslu samhliða næstu alþingiskosningum. Til hvers? Það hefur ekkert að segja. Þetta verður samþykkt væntanlega, síðan verur kosið almennt til alþingiskosninga og hvað er fólk að hugsa um þá? Það er að hugsa um framtíðina. Hvernig ætlum við að leysa skuldavanda heimilanna og hvað ætlum við að gera við efnahagsmálin og hvernig ætlum við að leysa snjóhengjuna og hvað ætlum við að gera í því að skapa atvinnu í landinu til að fólk geti borgað af lánunum sínum og geti yfirleitt framfleytt sér? Þetta verða álitamálin. Ekki stjórnarskráin, langt í frá. Svo kemur nýtt þing. Þar koma galvaskir nýir þingmenn og gamlir líka, vonandi einhverjir, og þeir munu greiða atkvæði um óbreytta stjórnarskrá. Ef þeir samþykkja hana er það orðið stjórnarskrá landsins. Fólkið í landinu hefur aldrei komið að því með bindandi hætti. Það finnst mér miður, frú forseti. Fyrir utan að það hefur verið sagt að ef menn ætla að éta fíl ættu þeir að gera það bita fyrir bita en ekki í einum bita, það er talið betra, það er svona viðráðanlegra. Mér finnst menn vera að éta fíl í einum bita.

Ég hef lagt fram tillögu um breytingar á 79. gr. eingöngu. Þá geta menn samþykkt hana. Að henni samþykktri geta menn tveim mánuðum seinna sent alla stjórnarskrána í bindandi atkvæði til þjóðarinnar eða sem ég tel vera miklu skynsamlegra, hluta af henni. Til dæmis gætum við byrjað á því sem allir þingmenn eru sammála um, eins og ákvæðið um að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki, ég held að allir séu sammála um að það megi taka það burt. Þannig að við ættum að fara í gegnum það ferli, ég held að allir þingmenn séu sammála því að hafa ákvæði um Hæstarétt. Ég þekki ekki einn einasta þingmann sem vill ekki hafa ákvæði um Hæstarétt í stjórnarskránni. Í dag er það ekki, það er ekki orð um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá.

Síðan er ég t.d. persónulega mjög skotinn í hugmyndum um Lögréttu, eins konar stjórnlagadómstól, en Lögrétta eins og stjórnlagaráðið leggur til er afskaplega fátæklegt. Ég vil hafa það í miklu veigameira hlutverki, miklu veigameira. Ég vil nota það sem við höfum, fullskipaðan Hæstarétt. Fullskipaður Hæstiréttur myndar Lögréttu. Og þingmenn geta vísað þangað frumvörpum sem þeir telja að stangist á við stjórnarskrá, en almenningur getur líka vísað þangað málum ef hann telur að eitthvað ákvæði í lögum stangist á við stjórnarskrá. Ef Hæstiréttur lendir í þeirri stöðu eins og með öryrkjadóminn eða með kvótadóminn, setur hann á sig nýjan hatt fullskipaður og er Lögrétta og ákveður hvort þetta ákvæði í lögum standist stjórnarskrá. Þar með held ég að Lögrétta væri komin með virkilega flott hlutverk og kostaði lítið, ekki neitt.

Ég vil breyta því með því að breyta 79. gr. fyrst og síðan færu menn í vinnu við að breyta allri stjórnarskránni, en ég tel að ferlið sem er í þessum tillögum sé allt of létt. Meiri hluti Alþingis getur breytt stjórnarskrá, bara einfaldur meiri hluti — reyndar ekki í mannréttindamálum, þá fer það í atkvæðagreiðslu — en þetta er svo létt. Meira að segja einhver stemning í þjóðfélaginu getur komið fram ákveðinni stjórnarskrárbreytingu. Ég held þetta sé hættulegt. Við megum ekki hafa stjórnarskrána þannig að hún sé að breytast svona sí og æ vegna þess að þetta er grundvöllurinn, þetta er grundvöllur sem við öll tryggjum. Hún þarf að vera seig og það þarf að vera erfitt að breyta henni, en samt verður það að vera mögulegt.

Þess vegna vil ég að meiri hluti hv. nefndar sem flytur þetta mál og fær þetta til umsagnar, að hann bæti við bréf sitt til Feneyjanefndarinnar að skoða frumvarp mitt um 79. gr. og breytingu á henni, þannig að það skoði líka að breytingarnar séu bindandi og að þær verði ekki of léttar og ekki of erfiðar. Ég er með ákveðna þröskulda í mínum tillögum, þröskulda hérna á Alþingi, 40 þingmenn, þröskulda í þjóðfélaginu, að 50% kjósenda skuli samþykkja. Menn geta rætt það, kannski má hafa það 47% kjósenda, kannski má hafa eitthvað lægra. Eftir því sem við höfum það lægra þeim mun auðveldara verður að breyta stjórnarskrá og við þurfum að varast að sé of auðvelt, en það má heldur ekki vera svo erfitt að það gerist aldrei eins og mér skilst að sé í Danmörku.

Svo kem ég að því; hvað er eiginlega stjórnarskrá? Ég er ekkert viss um það að menn átti sig á því hvað stjórnarskrá er. Í mínum huga er stjórnarskrá mannréttindi og ekkert annað. Stjórnarskrá á að fjalla um mannréttindi. Hún á að fjalla um það hvernig ég sem einstaklingur í þjóðfélaginu og aðrir einstaklingar í þessu þjóðfélagi erum verndaðir og varðir fyrir öðrum einstaklingum. Það má t.d. ekki drepa neitt okkar, ég held að það sé númer eitt, það má ekki drepa neinn. Af hverju segjum við það bara ekki beint? Það er íslenska sem allir skilja. Ekkert okkar má drepa. Punktur. Það skilja allir. Þá má enginn ráðast á mig á götu og drepa mig og það er varið í stjórnarskrá.

Síðan finnst mér að málfrelsi og eignarréttur og annað slíkt vera mannréttindi. Það viljum við tryggja.

Svo eru kröfur á annað fólk, t.d. réttur barna á framfærslu foreldra. Réttur öryrkja og aldraðra á framfærslu og svo framvegis, þ.e. kröfur eins hóps á annan hóp. Ég vil að þetta séu jafnvel tvískipt réttindi; réttindi fyrstu gráðu, það er það sem ég legg mikið upp úr, frelsi einstaklingsins. Það er ekki einu sinni tryggt í þessum stjórnarskrárdrögum, að menn skuli vera frjálsir. Það er ekki sagt í drögunum að við skulum vera frjáls. Ég veit t.d. ekki hvort mansal væri leyft, ég er búinn að reyna að átta mig á því. Þetta þarf náttúrlega að vera alveg á tæru.

Ég hef nefnt nokkrum sinnum í kvöld rétt ófæddra til lífs. Hann er ekki tryggður. Það þykir mér miður. Auðvitað veit ég að það eru jaðartilfelli, hvenær verður manneskjan til, en það gerist örugglega ekki í vikunni fyrir fæðingu, það er löngu, löngu fyrr. Þannig að ég tel að stjórnarskráin sé aðallega mannréttindi.

Til þess að tryggja mannréttindi, hvað gerum við þá, frú forseti? Við stofnum ríki. Við stofnum ríki til þess að tryggja mannréttindi, lögreglu, dómsvald, löggjafarvald. Löggjafarvaldið tryggir og útfærir það hvernig mannréttindi skulu færð í lög, hvernig skal vinna með mannréttindin og síðan koma dómstólar og dæma og framkvæmdarvaldið framkvæmir. Svo til þess að halda þessu aðskildu og vernda borgarana fyrir ríkinu sem slíku, þrískiptum við því til þess að vernda þá.

Þetta er mín hugsun og sýn með stjórnarskrána. Þess vegna vil ég að mannréttindakaflinn sé númer eitt. Ég er sáttur við þetta fororð sem er í tillögum stjórnarandstöðunnar, mér finnst það fallegt, en að mannréttindi komi númer eitt, það mundi ég vilja. Það mundi ég vilja að nefndin hefði hugrekki til að flytja kaflann þangað. Ég held að það sé nú ekki mikið mál.

Svo vil ég að stjórnarskráin sé ekki með skrúðmælgi. Það er hræðilegt ef menn eyðileggja stjórnarskrána með skrúðmælgi. Allir eiga rétt til að lifa með reisn. Hvað þýðir það eiginlega? Hvað þýðir það eiginlega að lifa með reisn? Maður á líknardeild, lifir hann með reisn? Getur hann vísað í það að í stjórnarskránni standi að hann eigi að lifa með reisn og maðurinn er að deyja? Hvernig ætla menn að útfæra svona?

Ég held að það sé miklu betra að hafa stjórnarskrána tæra og skýra þannig að svona 80% af þjóðinni skilji hana án þess að þurfa lögfræðing til þess að útskýra málið fyrir sér. Ég tel nefnilega að stjórnarskrá sé heimspekilegt vandamál en ekki lögfræðilegt. Ég vil að hún sé á einföldu máli og án skrúðmælgi, menn forðist það að vera að blanda einhverju öðru en því sem þeir ætla nákvæmlega að segja inn í hana.

Ég hef rætt hérna um jöfnun atkvæðisréttar. Ég vil hafa hann jafnan. Það truflar mig dálítið að vera að tala um hóp kjósenda. Hópur kjósenda í mínum huga er flokkur, bara svo menn viti það. Menn eiga bara að tala um flokka. Það er íslenska, þannig að menn séu ekki að fara út í svoleiðis tilfæringar.

Svo er allt of mikið í þessari stjórnarskrá sem á bara að vera í lagasafninu. Við eigum ekki að vera að taka inn í stjórnarskrá heilmikið um þingsköp og heilmikið af málum sem hefur verið sett inn í stjórnarskrá.

Svo ætla ég rétt aðeins að klára þetta með því að ræða um samskipti þjóðar og þings.

Hér er tillaga um það að 2% þjóðarinnar geti lagt fram lagafrumvarp. Almáttugur, hver einasti þingmaður, 63 geta lagt fram lagafrumvarp, forsetinn að auki. Ef væri einhver hópur manna 2% þjóðarinnar með tilbúið lagafrumvarp með greinargerð og öllu saman og hann fyndi ekki einn þingmann til að leggja það fram, það væri nú undarlegt. Þar með væri málið leyst.

Svo er talað um að 10% geti lagt fram lagafrumvarp sem Alþingi eigi að ræða fram og til baka. Það er gefið í það heilt ár, ég hugsa að ferlið allt taki svona eitt og hálft til tvö ár og fram og til baka og þetta er eiginlega deila kjósenda við Alþingi. Er ekki miklu heiðarlegra að segja bara að 15% kjósenda geti krafist atkvæðagreiðslu um þingrof eða vantraust á Alþingi ef það er orðið svona mikið? Þingrof og í kjölfarið kosningar. Væri það ekki miklu heiðarlegra? Mér finnst að menn þurfi að ræða svona hluti, séu ekki að koma með einhverja vitleysu hingað inn eins og ég tel að þessi 10% regla sé. Svo getum við rætt um hvort mörkin eigi að vera 10%, 15% eða 12%, en það er hlutverk nefndarinnar.