141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:38]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans innlegg í umræðuna. Það er áhugavert að geta tekið umræðuna á efnislegum nótum eins og hér hefur verið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal mætir tilbúinn í umræðuna og lýsir því jafnframt yfir að hann sé opinn fyrir því að taka rökum og mótrökum í henni. Það er akkúrat á þann máta sem við þurfum að fara í gegnum þetta ferli á næstu vikum, að menn mæti tilbúnir til að taka umræðuna. Eins og komið hefur fram fyrr í dag, og við þekkjum af fyrri umræðu í málinu, hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal lagt fram ítarlegar útfærslur sínar og athugasemdir við frumvarpið sem var hér fyrr í drögum frá stjórnlagaráði. Það hefur að vísu tekið ákveðnum breytingum en engu að síður liggja hans athugasemdir fyrir. Auðvitað er rétt að fara yfir það. Ég lýsti sjálfur í umræðunni að það eru ákveðnir hlutir sem ég tel áhugaverða og athyglisverða og þess virði að skoða.

Hitt er annað að þótt einstaka þingmenn komi vel nestaðir inn í þessa umræðu er það auðvitað þingið sem reynir sameiginlega að ná sátt og samkomulagi um að skrifa sína stjórnarskrá fyrir þjóðina þó að hvert okkar um sig vildi örugglega, og hefði efni og ástæðu til, útfæra það með sínum hætti. Þess vegna skiptir auðvitað máli að við náum saman um þá þætti og förum yfir þau atriði þar sem eru uppi álit og skoðanir.

Ég hefði gjarnan viljað heyra aðeins meira um tillögur, hugmyndir og sjónarmið hv. þingmanns varðandi kosningafyrirkomulag, persónukjör og annað sem að því lýtur og er í tillögunum sem hafa verið lagðar fram í frumvarpi, og einnig um stöðu og hlutverk forsetans gagnvart stjórnkerfinu. Ef hann gæti farið aðeins nánar yfir þau mál.