141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við þurfum að skoða kosningakaflann mjög vel með það að markmiði að reyna að jafna vægi atkvæða allra landsmanna og líka að koma á ákveðnu persónukjöri ef það er möguleiki. Ég veit að Þjóðverjar eru með svona kjör. Fjöldi þingmanna er ekki ákveðinn heldur getur hann sveiflast til eftir því hvernig persónukjörið fer. Ef margir kjósa einn flokk og fólk í öðrum flokki í persónukjöri fjölgar þingmönnum á þýska þinginu. Þess vegna liggur ekki fyrir hvað það eru margir þingmenn á þýska þinginu.

Ég veit ekki hvort þetta er góð lausn en það er örugglega hægt að finna lausn sem menn geta orðið sæmilega sáttir við, að ná þeim markmiðum að jafna atkvæðisrétt um allt land og hafa persónukjör.

Ég vil undirstrika að við eigum að bæta stöðu landsbyggðarinnar með öðrum hætti en með of miklum atkvæðisrétti. Ég hef nefnt að það á hreinlega að borga fyrir það ef menn hafa ekki aðgang að stjórnsýslunni eins og við í Reykjavík. Það á að jafna þann aðstöðumun. Fyrst við hrúgum stjórnsýslunni upp í Reykjavík eigum við bara að borga fyrir það, bæði tíma og ferðir. Það verður kannski til þess að eitthvað af stjórnsýslunni verður flutt út á land.

Ég kem kannski seinna í andsvari inn á hina spurningu þingmannsins en ég tel að við eigum að vinna þetta núna í anda sátta. Það getur vel verið að við náum ekki saman um allt og þá finnst mér við eiga að taka það sem við náum saman um og setja það sem breytingu.