143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur enginn svarað því vegna þess að það hefur ekki verið reiknað út. Hv. framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar, sem talaði fyrir frumvarpinu í þingsal, viðurkenndi það opinberlega í viðtali við Morgunblaðið á þriðjudaginn í síðustu viku að hann þekkti ekki þessar upphæðir, þær hefðu ekki verið reiknaðar út.

Hitt vitum við að á gjörgæslunni verður að sjálfsögðu krafist gjalds. Ég bið menn um að skoða textann sem fylgir tillögunni. Þar er talað um að fólk eigi að greiða fyrir aðstöðu. Hvaða aðstöðu hafa menn á spítala? Það er sjúkrarúm. Menn greiða fyrir aðstöðu.

Hv. þingmaður spurði um gjaldtöku af öldruðum, öryrkjum og börnum, þess vegna á gjörgæslunni. Þau munu öll borga en þau fá afslátt. Það eru aðeins fæðandi konur sem eiga að fá ókeypis inn. Það er fínt, mér finnst það gott þó að það sé eini hópurinn sem ekki er veikur.

Við skulum ekki gleyma því að þegar fólk er lagt inn á sjúkrahús, hvað hefur þá gerst í þeirra lífi yfirleitt? Hver er aðdragandi þess að maður er lagður inn á sjúkrahús? Yfirleitt eru það einhver veikindi í aðdragandanum, eða mjög oft, og þá hefur dregið úr vinnuþreki. Hvað þýðir það? Það þýðir tekjumissir, að sjálfsögðu. Það er þetta fólk sem gjöldin leggjast síðan á.

Á sama tíma — og við verðum að horfa á þetta samhengi — á sama tíma og menn taka ákvörðun um að leggja ekki á auðlegðarskatt, á sama tíma og menn taka ákvörðun um að gefa útgerðinni afslátt sem nemur mörgum, mörgum milljörðum kr., á sama hátt og verið er að lækka skatta við okkur sem erum hér inni um 0,8% á millitekjur (Forseti hringir.) og ná þannig inn að sögn þeirra fimm milljörðum, (Forseti hringir.) þá er verið að gera þetta, seilast ofan í vasann hjá þessu fólki.