144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er nú til að taka að það er ekki verið stofna nýja nefnd, það er verið að breyta lögum um starfsemi hennar. Það er ekki svo, eins og mátti ráða af máli og ræðu hv. þingmanns, að það sé nýmæli fólgið í því. Aftur á móti, eins og ég fór yfir í máli mínu, þá hafa orðið hér breytingar sem kalla á breytta lagaumgjörð um þá starfsemi sem nú þegar er til staðar til þess að tryggja að tilgangur þeirrar starfsemi nái fram að ganga.

Hvað varðar ný örnefni vil ég ítreka þetta: Með því að segja að þetta verði á ábyrgð sveitarfélaganna er verið að segja að fólkið, þ.e. íbúar þess svæðis, á hverju svæði þar sem örnefnið verður til geti komið að því að búa til slíkt nafn. Það þarf reyndar að leita umsagnar nefndarinnar á því nafni. Ég tel að það sé alveg eðlilegt. Það er þá verið að hugsa það þannig til að hægt sé að færa þetta nær almenningi. Hvað varðar vald ráðherrans þá mundi reyna mjög sjaldan á slíkt. Ég á ekki von á því að ég verði mjög upptekinn við það næstu tvö árin að finna ný örnefni.

Það er líka rétt að hafa í huga að það verður settur gagnagrunnur. Ég veit að hv. þingmaður verður ánægð með það. Ég ímynda mér það, virðulegi forseti, að það verði þannig. Settur verður upp gagnagrunnur til hliðar við hinn opinbera gagnagrunn þar sem einstaklingar geta komið á framfæri þekkingu sinni á örnefnum, skráð þau inn með kerfisbundnum hætti þannig að þau varðveitist þar. Þá er líka áhugavert fyrir fræðimenn að bera saman örnefni því við vitum að mörg náttúrufyrirbæri hafa fleiri en eitt. Sú þekking sem er staðbundin hjá einstaklingum á þá farveg inn í þetta kerfi okkar sem ég held að sé spennandi nýjung og einmitt til þess fallin að auka umræðu um örnefni og sögu þeirra og, eins og hv. (Forseti hringir.) þingmaður lýsti þessu, þar sem fólk kemur saman og gleðst yfir slíku. Ég held að það verði áfram þannig og allir möguleikar opnir hvað það varðar þó að lög um örnefnanefnd verði skýrð og skerpt á þeim.