144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem voru á þingi á síðasta kjörtímabili og ég held allir aðrir sem fylgdust eitthvað með störfum þingsins á því kjörtímabili vita að hér ríkti ekki mikil góðvild eða samhugur. Reyndar var andrúmsloftið rafmagnað og erfitt oft og tíðum. Þess vegna minnist ég kannski sérstaklega fundar sem við áttum í utanríkismálanefnd, ég held að það hafi verið vorið 2011, þegar fram kom tillaga um framlög til þróunarsamvinnu. Nefndin komst einhuga að samkomulagi um að hækka tillögurnar frá því sem ríkisstjórnin hafði lagt fram. Þetta var samþykkt og allir voru mjög glaðir.

Vorið 2013 var síðan samþykkt í þinginu að gefa betur í en þá lá fyrir. Og það var samþykkt einróma nema einn þingmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni, núverandi formaður fjárlaganefndar. Síðan tók hún sæti í hagræðingarhópnum og komst að því að það væri hægt að lækka þetta niður í 0,22% af þjóðarframleiðslu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst til skammar að hæstv. utanríkisráðherra segi að aldrei hafi verið greitt meira í krónum talið. Það er til skammar. Hann skal þá bara muna, ég held að það hafi verið árið 2010, þegar framlag okkar fór upp í 0,35% af þjóðarframleiðslu. (Forseti hringir.) Af hverju var það? Það var vegna þess að þjóðarframleiðslan hafði hrunið. Og nú er hér ríkisstjórn sem segir að það leki peningar út úr hverju horni og vill bæta í þetta og bæta í hitt, (Forseti hringir.) en tímir ekki að styðja við fátækustu lönd í heimi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)