146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka frummælanda, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, kærlega fyrir að opna þessa umræðu hér og ráðherranum fyrir svör hans.

Skýrslan sýnir enn á ný hversu margt fór úrskeiðis í sögunni þegar kom að umönnun okkar viðkvæmustu einstaklinga. Eins og frummælandi benti á má líka finna í skýrslunni mjög viðamiklar og góðar tillögur til úrbóta, sem er mjög mikilvægt framlag inn í það hvernig við tökumst á við þessar staðreyndir. Hér hefur ráðherrann farið í gegnum það að hluta til hvernig hann hyggst bregðast við þeim tillögum.

Þar sem ég vil fá að nýta minn tíma til að leggja áherslu á er tillaga nefndarinnar um að mótað verði nýtt fyrirkomulag á könnun og uppgjöri sanngirnisbóta vegna illrar meðferðar og ofbeldis gagnvart börnum á stofnunum. Við erum með núverandi fyrirkomulag þar sem við bregðumst við skýrslum. Ég tel að eðlilegt sé að við komum á varanlegu fyrirkomulagi þar sem einstaklingar sem telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem börn á stofnunum geti lagt fram gögn og fengið þau metin, það sé ekki alltaf verið að bregðast við einstakri skýrslu. Þetta ferli er líka svo mikilvægt hvað það varðar að þessir einstaklingar eru, eins og við höfum séð aftur og aftur, að fást við mjög alvarlegar afleiðingar af því ofbeldi sem þeir urðu fyrir. Þótt skýrsla komi fram og heimilt sé að leggja fram kröfur innan ákveðins tímaramma þá ræður viðkomandi einstaklingur kannski einfaldlega ekki við að sækjast eftir réttmætum bótum innan þess tímaramma.

Það er líka bent á mikilvægi þess að tryggja aðstoð við fólk sem er með þroskahömlun. Einnig þarf að hafa í huga hversu alvarlegar afleiðingarnar geta verið (Forseti hringir.) fyrir fólk sem var ekki með þroskahömlun í upphafi en varð fyrir slíku ofbeldi og gekk þar af leiðandi í gegnum miklar hörmungar alla sína ævi og þarf á góðri aðstoð (Forseti hringir.) að halda til að tryggja að það fái það uppgjör sem það á að fá.