146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skýrslan um Kópavogshælið er þörf og hún er gagnleg. Hún er það vegna þess að hún á að geta hjálpað okkur við að finna betri lausnir. Það er greinilegt af skýrslunni að breytingar urðu með lögum um aðstoð við þroskahefta 1979 og það er líka ljóst að hundruð einstaklinga, starfsmanna jafnt og stuðningsfélaga, hafa reynt að leggja sig fram um að bæta hag þeirra sem hafa þurft á þjónustu við fatlaða að halda.

Í framhaldi af skýrslunni er ljóst að það þarf margt að bæta. Við eigum núna að spyrja: Hvað svo? Spurningin er, virðulegur forseti, og ég legg þetta í púkk hæstv. ráðherra: Eigum við ekki að setja niður nýja nefnd á vegum ráðherrans sem hafi það hlutverk að gera tillögur um nýskipan þessara mála á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þeirrar reynslu sem birtist okkur í skýrslunni um Kópavogshælið? Til þess að sú reynsla verði skýr og gagnleg þarf líka að meta aðrar stofnanir og hvernig þær dugðu í þessum efnum. Er einhver ástæða til að ætla að þær hafi verið eitthvað öðruvísi en Kópavogshælið á sama tíma eða að öðru leyti en því að þær voru minni? Hvað með að skoða Tjaldanes? Hvað með að skoða Skálatún? Hvað með að skoða aðrar sambærilegar stofnanir frá sama tíma? Þessar tvær stofnanir nefni ég aðeins sem dæmi. En í athugun á þeim þarf líka að styðjast við fagþekkingu Þroskaþjálfafélagsins, sem er mikil, og fleiri aðila sem auk þess sem rætt verði við heimilisfólk og vistmenn.

Það er reyndar spurning, virðulegi forseti, hvort skýrslan um Kópavogshælið, svo átakanleg sem hún er, er ekki einmitt tilefni til að gera úttekt á íslenska velferðarkerfinu í heild, þ.e. markmiðum þess og framkvæmd þeirra markmiða.

Hæstv. ráðherra hefur rætt leiðir til að biðja sveitarfélögin í að sinna málaflokknum betur. Hann hefur rætt leiðir til þess að sinna eftirliti betur og til þess að tryggja að allir vinni í samræmi við lög en ekki síst, og það er kannski mikilvægast af öllu, með fullri virðingu fyrir þeim sem þjónustunnar njóta.