146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:13]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni Lilju Alfreðsdóttur fyrir sína ræðu. Ég áttaði mig þó ekki alveg til fulls á öllu því sem hún sagði. Mér fannst hún annars vegar gagnrýna að það gætu ekki allir tekið áhættu, í því fælist mismunun, en mér fannst hún líka vera að gagnrýna það að menn þyrftu að undirgangast lánshæfismat og þar með gætu þeir fengið aðgang að fé og í því fælist mismunun af því að sumir stæðust mat en aðrir ekki. Nú erum við með lánshæfismat víða í bankakerfi okkar. Við erum með mjög mismunandi vaxtakjör. Þannig er að þeir sem eru líklegastir til að geta staðið í skilum njóta bestu kjara. Vill hv. þingmaður hverfa frá þeirri meginreglu almennt í fjármálakerfinu?