146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir andsvarið. Ég hygg að í spurningu hans felist viss sannleikskjarni, þarna er tvítekning en ástæðan fyrir tvítekningunni er sú að við byggjum þetta á tveggja stoða kerfinu, þ.e. kerfi sem Ísland á beinan aðgang að en við heyrum ekki beint undir þessar stofnanir. Ef þær gera athugasemdir þá eru það ekki aðfararhæfar athugasemdir vegna þess að við heyrum ekki undir þeirra lögsögu beint heldur gerum við þetta í gegnum þessar stoðir okkar, þ.e. ESA og EFTA-dómstólinn. Það yrði ekki fyrr en Eftirlitsstofnun EFTA myndi gera athugasemd og það gæti þá eftir atvikum farið fyrir EFTA-dómstólinn sem við eigum aðgang að. Við eigum aðgang að báðum þessum stofnunum, en við eigum hins vegar ekki beinan aðgang að þessum stofnunum Evrópusambandsins. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi lausn fékkst. En við erum ekki háð eftirliti frá stofnunum þar sem við eigum ekki beinan aðgang.