148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Ég leyfi mér að taka upp orð hans: sjúkt kerfi. Þetta kerfi er sjúkt, það er sjúkt. Það byggist á styrkleikamun á milli aðila og það byggist á skorti á samkeppni á markaði.

Ef við höldum aðeins áfram með þá hugsun sem ég nefndi áðan, ef við setjum okkur í hóp vestrænna þjóða og nágrannaþjóða okkar og lítum á aðstæður eins og í Danmörku þá tekur fólk þar húsnæðislán með innan við 2% vöxtum. Það liggur alveg fyrir og — ja, mér liggur við að segja að hvaða barn á seinni árum grunnskóla geti reiknað það út úr einfaldri formúlu hvað það á að borga af þessu láni fyrir hvern einasta gjalddaga þess. Það er alger fyrirsjáanleiki, það er alveg klárt. En hér veit ekki nokkur maður neitt.

Síðan er annað, og taki menn eftir þessu, þ.e. að vaxtamyndun á óverðtryggðu láni — við erum hér með markað þar sem vextir myndast í einhverjum markaðsviðskiptum. Það gera þeir erlendis og við höfum samanburð við vexti annars staðar. En þessir verðtryggðu vextir sem svo eru nefndir eru án alls samhengis við umheiminn. Við höfum engan samanburð vegna þess að slík vaxtamyndun þekkist ekki á almennum lánum. Ríkissjóður gefur auðvitað út skuldabréf með einhverjum ákvæðum, en að það sé markaðsverðmyndun um þetta. Við erum því hér með verðtryggða vexti sem eiga enga raunhæfa markaðsmyndun að baki sér.