148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir þessa ræðu og þakka honum þann áhuga sem hann sýnir þessu máli. Hann hreyfði að mínu mati við athyglisverðum punkti sem ekki rataði inn í frumvarpið en hefur í nokkurn tíma verið áhugamál þess sem hér stendur þegar hann talaði um þaulsetu. Eins og hv. þingmaður veit varð sú breyting á með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, að í stað þess að embættismenn væru æviskipaðir voru þeir skipaðir í fimm ár í senn. Það var væntanlega gert til að opna á að ríkið sem vinnuveitandi gæti auglýst starf t.d. forstöðumanna og embættismanna á fimm ára fresti.

Hins vegar hefur framkvæmd laganna orðið þannig frá 1996 að störf hafa yfirleitt til þessa ekki verið auglýst á fimm ára fresti nema eitthvað hafi komið upp á, eitthvað hafi verið að. Það er alla vega sú tilfinning sem menn hafa fengið. Það eru að vísu til heiðarlegar undantekningar frá því. En mér hefði persónulega fundist að það ætti að vera ófrávíkjanleg regla að störf sem skipað er í á vegum ríkisins væru auglýst á fimm ára fresti. Sá sem situr í embættinu getur að sjálfsögðu sótt um og hefur þá forskot, bæði af út af reynslu sinni og ferli, eða þá hefur ríkið möguleika til þess að miða við fimm ára skipunartíma til að koma í veg fyrir þaulsetu, eins og hv. þingmaður orðaði það svo ágætlega.