149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

fasteignaliður í vísitölu.

[15:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessu efni. Ég vil leyfa mér að lýsa þeirri sannfæringu minni að húsnæðisliðurinna eigi alls ekki heima í vísitölunni og fyrir alla muni á hún ekki heima þar þegar þessi starfshópur hefur rökstutt að þetta sé ekki eiginleg verðbólga heldur til marks um einhvers konar hliðrun á verði.

Ég þakka ráðherra fyrir að víkja að því starfi sem í gangi er varðandi endurskoðun á lögum um Seðlabankann. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðað frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Þar er svo sem ekki verið að sóa pappírnum því að aðeins er sagt að þar séu ýmsar breytingar.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra hvaða markmið hafi verið sett í þá vinnu og hverjar þær breytingar séu helstar sem vænta megi í því frumvarpi.