150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

úrskurður forseta um óundirbúna fyrirspurn þingmanns.

[15:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. forseti er að glugga í þingsköpin. Ég ætlaði einmitt að gera slíkt hið sama og ætla að fá að lesa upp úr þeim kafla er snýr að óundirbúnum fyrirspurnum, 58. gr., með leyfi forseta:

„Í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum þingfundum, að jafnaði tvisvar í hverri heilli starfsviku […] getur forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra án nokkurs fyrirvara.“

Þetta er ekki flóknara en svona. Ég hefði haldið að efni og innihald þeirra fyrirspurna sem þingmenn mega spyrja án nokkurs fyrirvara ættu ekki að koma hæstv. forseta við.