151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir svarið. Þó að ég ætli ekki að gera tillögu um það hér að málið verði tekið til nefndar á milli umræðna held ég að þetta sé engu að síður atriði sem sé vert að skoða sérstaklega. Ég er nokkuð viss um, eftir að hafa starfað töluvert í rekstri, að það að eyrnamerkja 30% reiknings í kostnað sem fellur niður er skot töluvert yfir markið. Væru þessir sömu aðilar launamenn, eins og upphaflega frumvarpið gerði kröfu um, væri gert ráð fyrir þessum kostnaði með einum eða öðrum hætti í ráðningarsamningi viðkomandi aðila. Í öllu falli félli þessi kostnaður á íþróttafélagið og að langmestu leyti væri hann raunverulegur. Ég held að 70% greiðsluhlutfallið sé allt of lágt. Það væri mun nær lagi að horfa á tölu einhvers staðar í námunda við 90%. Því var gaukað að mér að komin væri fram breytingartillaga þess efnis frá hv. þingmanni í velferðarnefnd, Helgu Völu Helgadóttur, sem tekur einmitt á þessu í þá veruna að leggja til 90% í staðinn fyrir 70%. Ég held að það sé skynsamlegri nálgun en 70% viðmiðið því að launatengdu gjöldin koma alltaf til greiðslu. Verktakinn sem skilar íþróttafélagi reikningi upp á segjum 100.000, til að hafa töluna þægilega, þarf að skila launatengdu gjöldunum af þeirri upphæð að fullu. Það þarf að gera ráð fyrir launatengdu gjöldunum í stuðningsheimildinni samkvæmt þessu frumvarpi. Það er þá annar kostnaður (Forseti hringir.) sem mögulegt er að horfa til og hann er alveg örugglega ekki 30%.