151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum.

157. mál
[21:13]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því máli sem við ræðum hér núna. Þetta er löngu tímabært mál. Ég hef oft verið hugsi yfir framkomu okkar sem samfélags við þá sem eldri eru. Aldursfordómar geta verið svo rótgrónir í menningunni að við sjáum þá ekki, heyrum þá ekki, tökum ekki eftir þeim. Það sem er kannski verra er að óafvitandi tekur fólk oft þátt í einhverju sem litast af aldursfordómum sem eru rótgrónir í menningu okkar.

Brandaramenning getur oft upplýst um fordóma í samfélögum. Það er eiginlega skylda okkar allra að vera með opin augu. Það má hlæja og gera grín að hlutum í lífinu og að okkur öllum að einhverju leyti. En þegar það fer að snúast upp í það að vera hreint ofbeldi sem jaðarsetur hópa leynt og ljóst er það skylda okkar sem samfélags að rísa upp og horfa á það berum augum. Ég tel að þetta mál geri það, sé skref í átt að því. Svo að ég taki eitt dæmi um það sem ég á við er brandaramenning í kringum afmæli oft og tíðum sú að nokkrir áratugir eru sniðnir af þegar einhver á afmæli. Gert er ráð fyrir því að þeim sem á afmæli finnist það betra. Það er einhver útgangspunktur að undantekningarlaust sé betra að vera yngri en að fagna því að vera orðinn þroskaðri og vera lifandi. Þetta getur oft verið lúmskt. Það getur kannski oft verið fyndið ef það særir ekki en þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa augun opin fyrir í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt er það oft þannig með menningu að við sjáum hana ekki sjálf.

Í eldra fólki er oft mannauður sem hefur verið ýtt til hliðar. Eldra fólk hefur ekki þau tækifæri í samfélaginu sem það ætti að hafa og ætti að geta haft. Það hefur heilmikið fram að bjóða, hefur heilsu og áhuga en einhvern veginn er búið að draga úr möguleikum fólks vegna lífaldurs sem samfélagið segir að sé orðinn hár. Það þarf að laga.

Við þurfum að fagna því að þroskast sjálf og fagna því að aðrir þroskist, fagna reynslunni, þekkingunni sem eldra fólk býr að, fá jafnvel aðgang að henni, spyrja, tala við þá sem eldri eru sem hafa upplifað ýmislegt í gegnum ævina og vita jafnvel margt sem við vitum ekki sem yngri erum. Það getur oft verið dýrmæt þekking og dýrmætt samtal og gefandi. Eftir stendur samt að þessi skipting í eldri og yngri er líka varhugaverð. Við eigum að taka höndum saman. Við eigum að taka alla með, því að jaðarsetning hópa er alltaf ofbeldi. Ég fagna því þessu máli. Við þurfum að tala um þetta sem samfélag og megi málinu vegna vel í nefndarvinnu.