153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra eldri borgara.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú virðist komið í ljós að meiri hluti fjárlaganefndar og þar með ríkisstjórnarflokkarnir muni samþykkja 60.000 kr. eingreiðslu til öryrkja fyrir jólin, ekki bara 60.000 kr. heldur 60.300 kr. Meiri hluti fjárlaganefndar mun leggja fram breytingartillögu við fjáraukann, nánast samhljóða breytingartillögu hv. þm. Ingu Sæland sem lögð var fram fyrir skömmu. Ef rétt reynist þá ber að fagna því að sátt hafi náðst um þennan mikilvæga stuðning til þeirra sem mest þurfa á því að halda. Engu að síður verð ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að greiða sambærilega eingreiðslu til fátækustu eldri borgara okkar. Í umræddri breytingartillögu Flokks fólksins kemur fram að það myndi ekki kosta nema 360 millj. kr. að greiða sams konar eingreiðslu til þeirra 6.000 eldri borgara sem hafa minnst milli handanna. Í þessum hópi er svo sannarlega fátækt fólk sem þarf á aðstoð að halda. Þessi hópur býr óumdeilanlega í jafn sárri neyð og jafnvel verri að mörgu leyti. Er það raunverulegur vilji hæstv. ráðherra að skilja fátæka eldri borgara eftir eina ferðina enn eins og var gert í Covid eða ræður hann kannski engu um þetta í félagsmálaráðuneytinu vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur e.t.v. engan áhuga á að hjálpa þessum hópi? Ef við áttum okkur á því hver þessi hópur er þá eru þetta aðallega konur sem voru ekki úti á vinnumarkaði og eiga ekki lífeyri. Þetta er fólkið sem á að skilja eftir. Þetta er fólkið sem ríkisstjórnin telur einhvern veginn að þurfi ekki að fá hjálp, hvorki núna í 10% verðbólgu eða í Covid þegar allir fengu hjálp — þá var akkúrat þessi hópur skilinn eftir. Hæstv. ráðherra, á virkilega aftur að skilja þennan hóp eftir?