153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra eldri borgara.

[15:20]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil í fyrsta lagi fagna því sem hv. þingmaður hafði hér eftir fundarmönnum í fjárlaganefnd. Ég held að það sé mjög jákvæð niðurstaða sem hv. þingmaður fór hér yfir. Þegar eingreiðslurnar voru teknar upp, sennilega fyrir tveimur árum, voru þær ekki síst rökstuddar með því að um væri að ræða sérstaka uppbót fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þar sem ekki væri búið að laga greiðslukerfi þeirra. Þessi heildarendurskoðun og uppstokkun á málaflokknum og kerfinu hefur ekki farið fram líkt og búið er að gera fyrir ellilífeyrisþega. Það verður því að segjast eins og er að það er kannski ólíku saman að jafna í þessum málum þó svo að ég ætli ekki að draga úr því að það séu líka ellilífeyrisþegar sem hafi minna á milli handanna, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það verður þó að segjast að sú heildarendurskoðun sem fór fram á ellilífeyriskerfinu árið 2017 hefur skilað umtalsverðum breytingum, jákvæðum breytingum, fyrir þann hóp samfélagsins og ekki síður þau sem eru lægst í tekjugrunninum þar. Sama má segja um frumvarpið sem varð að lögum árið 2020, og tók gildi 2021, um félagslegan viðbótarstuðning. Allt er þetta eitthvað sem hefur mætt ellilífeyrisþegum og þeim sem minnst hafa í þeim hópi meira en verið hefur varðandi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.