153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðleg vernd flóttamanna .

[15:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að það hafi kannski ekki beint verið svar við spurningunum. En mig langar til að reyna að ná fram ákveðnu atriði hér í seinni fyrirspurn minni: Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að í ljósi bættra aðstæðna í Venesúela, sem vonandi verður í kjölfar þess samkomulags sem gert var og yfirumsjónar Sameinuðu þjóðanna, verði viðhaldið fjögurra ára viðbótarvernd hjá öllum þeim sem hana hafa fengið á þessu ári — til fjögurra ára, viðbótarvernd sem ekki er verið að veita í nágrannalöndum okkar? Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þeir sem komu hingað á árinu frá Venesúela, hátt í 1.000 manns, og fengu hér viðbótarvernd njóti hennar í fjögur ár þó að allar forsendur á heimasvæðinu verði mögulega breyttar?