Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála um þetta með sáttir en það skiptir miklu máli. Ég verð þó að draga fram m.a. að það sem Björn Bjarnason skrifaði í Morgunblaðið á laugardaginn þar sem hann dregur fram sérstaklega, og ég vil taka undir það, að öll rök mæla með því að íslensk stjórnvöld stígi enn fastar til jarðar en birtist í þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Það verði að tryggja hernaðarlegt öryggi lands og þjóðar við hættulegustu aðstæður sem hafa skapast síðan frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þetta vildi ég bara hafa sagt hér. En mín spurning er tvíþætt. Annars vegar vil ég fá afstöðu hæstv. ráðherra varðandi kjarnorkukaflann, hvort það sé ekki alveg skýrt að hann er óbreyttur og það þýðir þá, það sem stendur, að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnavopnum að teknu tilliti til alþjóðaskuldbindinga. Er ekki alveg skýrt að kjarnavopnastefna Íslands er sú sem NATO leggur fram að við skuldbindum okkur við — og höfum skrifað undir, m.a. í Madrid fyrr í sumar? Það sem stendur af hálfu NATO þegar kemur að kjarnavopnum er stefna Íslands.