Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú fyrst segja það að ég hef greinilega klikkað á því að lesa laugardagsmoggann. En ég tel hins vegar að undanfarin ár sýni að þessi stefna hefur staðið mjög vel fyrir sínu. Það er mín eindregna afstaða og ég er mjög ánægð með og það er samhljómur í þjóðaröryggisráði um þær breytingar sem hér eru lagðar til sem breyta henni ekki í grundvallaratriðum. Það er ekki lögð til breyting á því ákvæði þar sem fjallað er um friðlýsingu Íslands að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, eins og það er orðið í stefnunni. Það er ekki lögð til nein breyting á því. Þetta var mikið rætt á sínum tíma þegar stefnan var lögð fram og ég man vel eftir því, það var m.a. að frumkvæði okkar Vinstri grænna sem þessi texti fer inn um kjarnavopnin. En lendingin var þessi, ekki eingöngu út frá aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem hv. þingmaður nefnir hér heldur líka vegna hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland er skuldbundið til að heimila friðsamlega för skipa yfir landhelgina óháð því til að mynda hvort þau skip eru knúin kjarnorku eða kjarnavopn eru í þeim farmi svo lengi sem slíkt ógnar ekki friði. Þannig að þessar alþjóðlegu skuldbindingar (Forseti hringir.) voru ástæðan fyrir þessu á sínum tíma.